Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Úr fljótandi yfir í fasta fæðu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Litlu krílin eru fljót að stækka og áður en maður veit af eru þau orðin fullvaxta. Þau sem einn daginn liggja ómálga og ósjálfbjarga í vöggu eru þann næsta farin í menntaskóla. En það gerist þó sem betur fer ekki á einu augabragði, þótt okkur foreldrunum kunni stundum að finnast það. Hér eru nokkrir punktar um fyrstu föstu fæðuna fyrir ungbörn á aldrinum sex til níu mánaða.

Grautur

Grautur hefur gefið góða raun sem fyrsta fæða. Mælt er með fjölbreytni í vali á ungbarnagrautum og að valdir séu grautar úr mismunandi tegundum korna og vörumerkja. Hægt er að velja á milli ungbarnagrauta úr höfrum, hirsti, bókhveiti, rúgi, byggi, hveiti og hrísgrjónum. Mikilvægt er að barnið fái járn úr fæðunni þar sem járnbirgðir þess eru uppurnar við sex mánaða aldur. Því er æskilegast að velja járnbættan graut sem er sérstaklega ætlaður ungbörnum, án aukabragðefna og forðast sætar blöndur. Mikilvægt er að lesa utan á umbúðir og skoða vel innihaldið því aðeins sumar tegundir eru járnbættar.

Maukað grænmeti

Tilvalið er að byrja með kartöflur, gulrætur og rófur. Smátt og smátt má svo bæta við spergilkáli (brokkólí), blómkáli, grænum baunum og fleiri tegundum. Gæta þarf þess að hreinsa grænmeti og kartöflur vel fyrir suðu og jafnvel afhýða ef ætlunin er að nota soðið. Auk þess þarf að sjóða grænmetið það lengi að það maukist auðveldlega. Gott er að setja svolítið af soðvatninu og teskeið af matarolíu, ósöltuðu smjöri eða smjörva í stöppuna.

Maukaðir ávextir

- Auglýsing -

Upplagt er að mauka ávexti eins og banana, epli og perur. Banana er auðvelt að mauka með gaffli og epli má ýmist sjóða og mauka eða skafa með teskeið.

Maukað kjöt

Snemma á tímabilinu sex til níu mánaða má byrja að gefa barninu soðið og vel maukað kjöt, fisk, egg, baunir og linsur sem eru járnríkar fæðutegundir. Lifur og lifrarpylsu ætti eingöngu að gefa í hófi, hvorki á hverjum degi né vikulega, þar sem þær innihalda mikið A-vítamín.

- Auglýsing -

Gott er að nota soðvatnið og olíu, ósaltað smjör eða smjörva til að mauka með. Mat ungbarns skal alls ekki salta. Mikilvægt er að byrja hægt og rólega, gefa lítið í einu til að byrja með.

Brauð

Fljótlega, eða þegar barnið ræður við, má fara að gefa brauð í litlum bitum með smuráleggi, t.d. með lifrarkæfu, smurosti, maukuðu avókadó eða banana. Mælt er með að val á áleggi sé fjölbreytt svo barnið fá ekki sama álegg alla daga. Ekki er mælt með brauði með heilum kornum í, en brauð úr grófum mjöltegundum henta vel.

Heitur matur

Kartöflur og soðið grænmeti er hægt að stappa með gaffli eða mauka með töfrasprota í soðvatninu með olíu, ósöltu smjöri, eða smjörva eða í svolítilli sósu. Svo má bæta út í soðnu kjöti, kjöthakki, kjúklingi, eggjum eða fiski og mauka vel með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

Einfalt er að taka frá lítinn skammt af matnum sem er útbúinn fyrir fjölskylduna, áður en hann er saltaður eða mikið kryddaður. Þess þarf þó að gæta að allur fjölskyldumatur hentar ekki fyrir ungbarnið, til dæmis unnar kjötvörur. Þ.e. kjöt sem er reykt, saltað eða rotvarið með nítrati eða nítríti, til dæmis pylsur, pepperóní, saltkjöt og beikon. Saltaður eða reyktur fiskur hentar ungbarninu ekki heldur.

Eftir sex mánaða aldur

Kemst smám saman regla á máltíðir barnsins. Flestum börnum hentar að borða eða drekka fimm til sex sinnum á dag, en sum þurfa að borða oftar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -