Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, segir frá útivistarperlum í Hafnarfirði.
Hafnarfjörður er svo miklu meira en þyrping húsa en þar má finna eitt stórbrotnasta útivistasvæði landsins. Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins og innanhússarkitekt, hefur búið í Hafnarfirði síðan 1962 og þekkir bæinn og umhverfi hans vel. Við fengum hann til að segja okkur frá nokkrum perlum á svæðinu.
Guðni er kvæntur Kristjönu Þórdísi Ásgeirsdóttur og þau eiga sex syni og 5 barnabörn. „Við Kristjana byrjuðum að búa á brúðkaupsnóttinni árið 1978 í gömlu húsi við Suðurgötu. Síðan hefur annað ekki komið til greina en að vera hér enda gott að búa í Hafnarfirði sem státar af gríðarlega fallegu bæjarstæði sem er umvafið af sjávarströnd, fjölbreyttu hrauni og óteljandi náttúrufyrirbrigðum og minjum um byggð fyrri alda. Mannlífið er gott og fjölbreytt félagsstarf og menningarstarfsemi. Þrátt fyrir stærðina er það eins og að búa í þorpi, í besta skilningi þess orðs, að búa í Hafnarfirði.“
Hellisgerði
Milli Skúlaskeiðs og Reykjavíkurvegar er skrúðgarður Hafnfirðinga, einstakur fyrir hraunlandslag sitt. Var farið að nota hann sem áningarstað á 19. öldinni en hann dregur nafn sitt af Fjarðarhelli sem þar er. Formlegur skrúðgarður varð hann árið 1923 og eftir það hófst trjárækt þar og síðar blómarækt. Þarna eru ákjósanlegir staðir til að setjast á teppi með nesti og njóta þessarar náttúruperlu í hjarta Hafnarfjarðar.
Malirnar
Mikil útgerð hefur verið í Hafnarfirði enda er þar góð höfn frá náttúrunnar hendi. Malirnar er samnefni malarkamba á milli hraunkletta við norðanverðan Hafnarfjörð. Krosseyri var við gamla hafnargarðinn en er nú horfin en utar sjást enn Langeyramalir við Herjólfsgötu og Litlu-Langeyrarmalir undan Brúsastöðum. Skerseyrarmalir liggja milli Brúsastaða og Balaklappar. Frá bílastæði innst við Herjólfsgötu er skemmtileg gönguleið eftir fjörukambinum. Skarf má sjá á klettum í sjónum og þarna má sjá ummerki eftir útgerð fyrri alda.
Hvaleyrarvatn
Jafnt að vetri sem sumri er umhverfi Hvaleyrarvatns, rétt innan byggðar í Hafnarfirði, orðin hreinasta perla. Á sumrin hópast fólk að vatninu á góðviðrisdögum og buslar í vatninu, gengur og hjólar á stígum allt umhverfis vatnið og nýtur lífsins. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur ræktað þar mikinn skóg og lagt stíga og þar má finna svæði með sýnishornum af flestum trjátegundum og einnig er þar að finna nyrsta rósagarð í heimi. Hafnfirsku skátarnir eiga skála við vatnið og hafa komið þar upp útivistarparadís.
Helgafell
Bæjarfell Hafnfirðinga er 338 metra hár móbergsstapi ofan Kaldársels. Fjallið, sem myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, er vinsælt til uppgöngu og ágætlega mörkuð leið er frá Kaldárbotnum, upptökum kalda vatns Hafnfirðinga. Á fjallinu er varða og í henni má finna gestabók. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru nálægt Helgafelli og gönguferð í kringum fjallið getur leitt fólk að Litlu-borgum, friðuðum hraunmyndunum S-A fjallsins, Valabóli austan Valahnjúka og fleiri staða.
Fosshellir
Fjölmarga hraunhella má finna í landi Hafnarfjarðar. Ef gengið er til austurs frá bílastæðunum við Kaldárbotna ofan Kaldársels, með fram vatnsverndargirðingunni er komið í Helgadal. Þar er gönguleið á sléttri hraunhellu þar til gönguleiðin snýr til suðurs. Þar í N-A er komið að jarðfalli. Gengið er niður í jarðfallið og til vinstri og er þá komið að hraunfossinum sem hellirinn er nefndur eftir. Þarna þarf vasaljós og ef haldið er upp fossinn má sjá hraunmyndanir sem minna á jötu og eru ummerki hraunstraums. Þá fer að glitta í ljós og þegar út er komið er horft til baka að gönguleiðinni. Líkur eru á að Fosshellir sé hluti 100 m hellis en op inn í hann má finna í hraunsprungu um 100 m N-V af útgönguleiðinni. Skammt þar undan er Rauðshellir sem einnig er áhugaverður.
Gjárnar
Rétt áður en komið er í Kaldársel, þar sem gamli Kaldárselsvegurinn mætir þeim nýja eru einstaklega fallegar hraunmyndanir sem kallast Gjár. Gjárnar eru leifar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir u.þ.b. 7000 árum þegar Búrfellsgosi var að ljúka. Sjóðandi heit hrauneðjan kraumaði um stund í tjörninni áður en hraunflaumurinn rann eftir neðanjarðarrásum í átt til sjávar og tjarnarbotninn storknaði. Gjárnar voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009.
Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Guðni við Tröllin í Valahnúkum, Helgafell í bakgrunni. Mynd / Jón Guðnason