Góð ástæða til að hreinsa til í baðskápnum og snyrtibuddunni er að skapa meira pláss og skipulag. Önnur, og mögulega betri ástæða, er sú að eftir að vara hefur verið opnuð kemst súrefni að henni sem gerir það að verkum að hún fer að skemmast, innihaldsefnin tapa virkni sinni auk þess sem að bakteríur og örverur af fingrum okkar og úr umhverfinu komast í vöruna. Allt þetta getur valdið ertingu eða jafnvel sýkingu í húð okkar. Þess vegna er mikilvægt að gera reglulega rassíu og henda útrunnum snyrtivörum.
Allar snyrtivörur renna út en eftir mislangan tíma. Vandinn er að fæstar vörur eru merktar með ákveðinni dagsetningu, það á í raun eingöngu við um sólarvörn og vörur sem eru fengnar með lyfseðli. Þó að varan sé ekki merkt með dagsetningu er yfirleitt önnur merking á henni sem miðast við hvenær varan er opnuð, en hún kallast í PAO meðal framleiðanda eða „Period After Opening“.
PAO-merkinguna er að finna á næröllum vörum sem seldar eru í Evrópu. Merkingin er tölustafur, bókstafurinn M og svo opin krukka. Tölustafurinn segir til um líftíma vörunnar eftir að hún hefur verið opnuð í mánuðum talið. Þessi tala er ekki pottþétt, en gott viðmið. Vandinn er að við munum oft ekki hvenær við opnuðum vöruna og ættum í raun að venja okkur á að merkja á vörur dagsetninguna sem hún var opnuð.
Vertu vakandi
Vara þarf ekki að vera orðin gömul til þess að verða ónýt eða hafa orðið bakteríum að bráð, því er mikilvægt að vera stöðugt á varðbergi. Ef litur, lykt eða áferð vöru breytist þá getur það verið merki um að varan sé skemmd. Til dæmis getur hún dökknað á lit, komið þráalykt af henni eða hún getur skilið sig, þá er tími til kominn að hún fari beinustu leið í ruslið. Einnig geta umbúðirnar bólgnað eða bognað sem er líka vísbending að ekki sé allt með feldu.
Náttúruleg innihaldsefni
Góð þumalputtaregla segir að allar vörur með vatn sem megininnihaldsefni hafa stystan líftíma eftir opnun því bakteríur og örverur þurfa á rakanum að halda til að þrífast. Náttúruleg innihaldsefni úr plöntum hafa einnig stuttan líftíma, rétt eins og ávextir á eldhúsborði.
Engin rotvarnarefni
Ef vara er sögð vera án rotvarnarefna ber að fara mjög varlega með hana því án rotvarnarefna þrífast bakteríur óhindrað. Þó að það hljómi öruggara að nota náttúruleg rotvarnarefni þá eru þau samt sem áður ekki jafnskilvirk. Gott er að klára slíkar vörur með því að nota þær á hverjum degi í nokkra mánuði frekar en að nota þær endrum og sinnum í lengri tíma, einnig má lengja líftímann með því að geyma vörurnar í ísskápnum.
Áður en varan skemmist
Stundum kaupum við vörur sem við erum ekki nógu hrifnar af og notum þar af leiðandi ekki. Þær safnast þá fyrir í skápnum hjá okkur og renna smám saman út. Það er góð regla að reyna að losa sig við slíkar vörur strax. Það þýðir þó ekki að þú verðir að henda þeim heldur getur þú gefið vinkonu þinni eða fjölskyldumeðlim þær eða gefið til Kvennakots.
Líftími förðunarvara
Púður (augnskuggar, kinnalitir o.s.frv.): Tvö ár, eða lengur ef vel er hugsað um vörurnar.
Kremkenndar vörur: Eitt til eitt og hálft ár.
Farði: Eitt ár til eitt og hálft ár.
Hyljari: Eitt ár til eitt og hálft ár.
Varalitur: Eitt ár.
Varablýantur: Eitt ár til eitt og hálft ár.
Varagloss: Eitt og hálft til tvö ár.
Augnblýantur: Tvö ár
Augnlínupenni eða -gel: Sex til átta mánuðir.
Maskari: Þrír til sex mánuðir.
Líftími húðvara
Andlitshreinsir: Eitt ár
Andlitsvatn: Hálft til eitt ár
Vörur sem innihalda AHA- eða BHA-sýrur: Eitt ár
Rakakrem og serum: Hálft til eitt ár
Varasalvi: Eitt ár
Prufur: Einn til þrír dagar
Húðvörur – Nokkrar góðar reglur til að hafa í huga
- Geymdu vörurnar í lokuðum skáp eða skúffu.
- Þvoðu hendur vandlega áður en þú notar vörur.
- Passaðu að skrúfa tappa eða lok vel á eftir hverja notkun.
- Gefðu gaum að því að raki og hiti hefur áhrif á vörur.
- Skrifaðu dagsetninguna sem þú opnaðir vöruna með tússpenna á umbúðirnar.
- Fylgstu vel með breytingum á lit eða lykt.
- Fylgdu dagsetningunum sem standa á sólarvörnum, því virku efnin sem eiga að vernda þig hafa mjög takmarkaðan líftíma og að honum loknum verður sólavörnin að venjulegu „body lotion“.
- Kauptu vörur í túbu eða pumpu frekar en í krukku. Það er 100% hætta á bakteríusmiti í krukkum því maður er stöðugt að opna og loka þeim, svo ekki sé minnst á að stinga fingrunum ofan í þær.
- Ekki geyma vörur þar sem sólin skín á þær.
- Ekki deila húðvörum með vinum þínum.
- Ekki gleyma að þrífa tappann eða lokið vel ef þú missir það á gólfið, þá með sápu og heitu vatni eða hreinsispritti og leyfa því að þorna áður en þú skrúfar það aftur á.
Förðunarvörur – Nokkrar góðar reglur til að hafa í huga
- Þrífðu bursta og áhöld reglulega því annars gætu þau borið húðfitu og bakteríur í vörurnar þínar.
- Ekki deila maskara með neinum.
- Þú finnur það strax á lyktinni ef varalitur er orðinn skemmdur, fitan í honum þránar.
- Ef áferðin er orðin þykk eða kekkjótt þá er varan skemmd.
- Vörur sem innihalda olíur geta farið að skilja sig eftir smátíma og þá er ekki aftur snúið.
- Yddaðu blýanta reglulega því það heldur þeim ferskum.
- Geymdu kremvörur á hvolfi til að sporna gegn því að þær þorni upp.
- Byrjaðu alltaf á því að þvo á þér hendurnar áður en þú notar förðunarvörur.