Þriðjudagur 29. október, 2024
5.7 C
Reykjavik

Vagga indverskrar matarmenningar í Bretlandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í Birmingham er af nógu að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat. Margt annað áhugavert er þar líka í boði.

Birmingham er önnur stærsta borg Bretlands, London er stærst. Borgin hefur verið í stöðugri endurnýjun undanfarna áratugi svo byggingarnar eru ýmist mjög gamlar eða ofur nýtískulegar. Í borginni býr um milljón manna og þar ríkir mikið fjölmenningarsamfélag, sama hvað sagt er á FoxNews. Hún er mjög heppilega staðsett í miðju Englands, mitt á milli London og Manchester, svo það má segja að hún brúi bilið milli Norður- og Suður-Englands.

Í Birmingham er gaman að versla því þar er glæsileg verslunarmiðstöð sem nefnist The Bullring. Hún byggir á ríkri markaðshefð en það var fyrst árið 1154 sem markaðir voru haldnir á þessu svæði. Verslun og þjónusta hefur nú vitaskuld færst í nútímalegra horf og nýjasta byggingin líkist einna helst geimskipi og er merkileg á að líta, burtséð frá öllum verslunum sem þar leynast innandyra.

Allir vísindanördar ættu að gera sér ferð í Thinktank-vísindasafnið sem er að margra mati nútímalegasta vísindasafn heims. Þar eru tíu sýningarsalir sem eru stútfullir af fróðleik og skemmtun. Hægt er að fræðast um allt frá samgöngutækni að meltingarkerfi okkar og hvernig bragðlaukarnir virka.

Þeir sem vilja heldur skemmta sér úti í náttúrunni ættu að leggja leið sína í Cannock Chase- og Wyre-skóginn. Þar er að finna Go Ape sem er einn vinsælasti skógarskemmtigarðurinn í Bretlandi. Svífðu niður á milli trjáa á vír eða sveiflaðu þér um, eins og Tarzan, í þartilgerðum rólum. Þeir sem vilja heldur njóta náttúrunnar og umhverfisins í skóginum á rólegri máta geta ferðast um á Segway sem gerir þeim kleift að sjá meira á skemmri tíma en ef þeir væru fótgangandi.

Af nógu er að taka fyrir þá sem vilja krydda aðeins tilveruna með framandi mat en Birmingham er oft lýst sem vöggu indverskrar matarmenningar í Bretlandi. Þar er að finna eitt allrabesta úrval asískra og indverskra veitingastaða og það á sérstaklega við um hinn svokallaða Balti-þríhyrning, á mótum hverfanna Sparkbrook, Balsall Heath og Moseley. Balti er þunnur karríréttur upprunninn frá svæðinu í kringum Kasmír á landamærum Indlands og Pakistan og nafnið vísar til skálarinnar sem karríið er borið fram í.

Texti  / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -