Gönguferðir á Víknaslóðum hafa aukist mikið á undanförnum árum enda um að ræða eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi.
Ef þig langar að ganga um svæðið næsta sumar og gista í skálum á leiðinni þarf að hafa hraðar hendur því gistiplássin eru fljót að fara.
Hægt er að vera með alls konar útfærslur á gönguferðum á Víknaslóðum og þær geta tekið frá einum degi upp í að vera margra daga ferð. Gott kort er til af leiðunum og búið að stika þær helstu. Þó að alltaf sé skemmtilegt að fá leiðsögumann í svona ferðir til að fá allar sögurnar af svæðinu beint í æð er það ekki nauðsynlegt fyrir vana göngugarpa. Með leiðsögumanni er einnig hægt að taka allskonar útúrdúra frá hinum stikuðu gönguleiðum og skoða þannig fleiri áhugaverða staði.
Á svæðinu eru þrír skálar á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Þeir eru virkilega vel útbúnir með eldunaraðstöðu, vatnsklósettum og sturtum og hitaðir upp með timburkamínu. Einnig eru góð tjaldsvæði. Yfir sumarið er skálavörður í hverjum skála sem sér um að allt sé í röð og reglu. Með því að gerast félagi í Ferðafélagi Íslands eða einhverju af aðildarfélögum þess má fá mun ódýrara verð á gistingu.
Vinsælt er að ganga Víknaslóðir á nokkrum dögum með því að byrja á Borgarfirði eystra og enda á Seyðisfirði – eða öfugt. Sé byrjað á Seyðisfirði er gengið um Hjálárdalsheiði sem á árum áður var aðalleiðin milli fjarðanna tveggja. Vaða þarf tvær óbrúaðar ár en brú er á Fjarðará í Loðmundarfirði við Svæarenda. Einnig er hægt að fara Árnastaðaskörð en það er töluvert brattari leið. Margt fallegt er að sjá í Loðmundarfirði og eftir að búið er að koma sér fyrir í Ferðafélagsskálanum er tilvalið að skoða Klyppsstaðakirkju og fossinn innan við hana.
Frá Loðmundarfirði er annaðhvort hægt að fara beint til Borgarfjarðar um Kækjuskörð eða halda áfram til Húsavíkur um Nesháls. Sú gönguleið er frekar stutt og létt og fyrir lengra komna og hópa með leiðsögumann er hægt að fara upp úr firðinum við Stakkahlíðarskriður og upp Skúmhattardal og yfir í Húsavík sunnan Skúmhattar. Húsavíkurskáli er staðsettur innst í fallegum dalnum en niðri við sjóinn er Húsavíkurkirkja, hana er nauðsynlegt að heimsækja.
Frá Húsavíkurskála er hægt að halda áfram nokkrar leiðir. Ein liggur um Gunnhildardal austan Hvítserks og Leirfjalls og yfir í Breiðuvík. Einnig er hægt að fylgja veginum yfir Húsavíkurheiði og fara yfir í Borgarfjörð eða yfir Víknaheiði, norðan Hvítserks, og þá leiðina í Breiðuvík. Vilji fólk taka skemmtilegan útúrdúr á þessa leið þá er virkilega gaman að ganga á Hvítserk sem hefur að geyma stórkostlegar hraunmyndanir.
Þó að alltaf sé skemmtilegt að fá leiðsögumann í svona ferðir til að fá allar sögurnar af svæðinu beint í æð er það ekki nauðsynlegt fyrir vana göngugarpa. Með leiðsögumanni er einnig hægt að taka allskonar útúrdúra frá hinum stikuðu gönguleiðum og skoða þannig fleiri áhugaverða staði.
Í Breiðuvík eru enn krossgötur og um ýmsar leiðir að velja. Hægt er að ganga bílveginn yfir Gagnheiði til Borgarfjarðar eða halda áfram til Brúnavíkur. Á leiðinni er farið fram hjá Kjólsvík og Hvalvík en á milli þeirra er hið víðfræga fjall Glettingur og Glettinganes. Það er eitthvað óviðjafnanlega töff við að ganga á Gletting eða fara út að vitanum á Glettinganesi. Mæli með öðru hvoru, eða hvoru tveggja. Að lokum er hægt að fara til Borgarfjarðar yfir Brúnavíkurskarð eða Hofstrandarskarð.
Frá mörgum stöðum í göngunni blasa Dyrfjöllin við í allri sinni dýrð. Að auki má sannarlega mæla með göngu á þau sem og í Stórurð, Stapavík og Njarðvík.
Greinargóðar upplýsingar um allar gönguleiðirnar, skála, leiðsögn, útbúnað, öryggi, trúss og fleira eru á heimasíðunni borgarfjordureystri.is.
Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Helgi M. Arngrímsson