Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

„Var ráðlagt að leyna hjónabandinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dísella Lárusdóttir hefur heldur betur gert það gott á tónlistarsviðinu síðustu ár. Leiðinni að velgengni var þó þyrnum stráð. Dísella hafði takmarkaða trú á sjálfri sér þegar hún var að feta sín fyrstu spor í óperusöng og bjóst allt eins við að hún myndi aldrei starfa í óperuheiminum. Auk þess reyndu ýmsir að hafa áhrif á feril hennar með hræðsluáróðri. Dísella er undir smásjánni að þessu sinni.

Fullt nafn: „Hjördís Elín Lárusdóttir. Ég svara þó eiginlega ekki nafninu Hjördís því hef ég alltaf verið kölluð Dísella og átti að heita það, en mannanafnanefnd vildi ekki samþykkja nafnið þegar ég fæddist.“

Aldur: „43 ára“

Starfsheiti: „Söngkona“

Hvað hefurðu verið að bralla fram til þessa: „Ég ver mestum tíma í að reyna að finna jafnvægi milli þess að vera mamma og sjálfstætt starfandi söngkona.“

Áhugamál: „Ég fattaði bara nýlega að ég á mér eiginlega ekki alvöruáhugamál fyrir utan sönginn, þetta gerist oft hjá fólki þegar áhugamálið verður að vinnu. Jú, reyndar finnst mér gaman að dunda mér í eldhúsinu.“

- Auglýsing -

Á döfinni: „Ég er að fara að syngja í óperuuppfærslu í Frakklandi í vetur. Þess utan erum við fjölskyldan að koma okkur betur fyrir í nýju húsi sem við fluttum inn í í júní og undirbúa komu þriðja barnsins.“

Þú átt viðburðaríkan feril að baki og hefur meðal annars sungið og leikið á sviði Metropolitan-óperunnar þar sem margir af helstu óperusöngvurum sögunnar hafa sungið.

Hver hefur verið mesta áskorunin við að koma þar fram?
„Stærsta áskorunin var að hafa trúi á sjálfri mér. Ég komst gegnum prufuferli á vegum þessa merka óperuhúss bara stuttu eftir að ég kláraði masters-námið mitt og á þeim tíma hafði ég í hreinskilni sagt enga trú á því að ég væri að fara að starfa við söng. En þegar maður kemst gegnum strembið áheyrnarprufuferli verður maður auðvitað að treysta því að fólkið sem situr við og hlustar og dæmir mann, viti sínu viti og fari ekki að hleypa manni inn í svona hús, óreyndri og án bakhjarls nema maður hafi upp á eitthvað að bjóða. Þetta er nokkuð sem ég hef þurft að minna mig reglulega á þegar ég hef staðið á þessu risastóra sviði fyrir framan 4.000 áheyrendur. Maður þarf að muna að standa með sjálfum sér.“

„Ég hafði ekki heyrt annað eins bull og lét það ekki stöðva mig í að eignast mitt fyrsta barn um svipað leyti og ég var að hefja feril minn sem sjálfstætt starfandi söngkona.“

- Auglýsing -

Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið sem söngkona og í lífinu yfirleitt? „Að fara ekki í felur með að ég væri gift og ætti börn. Í byrjun ferilsins var mér nefnilega ráðlagt að eignast ekki börn og leyna því að ég væri gift ef ég ætlaði mér að ná langt í þessum bransa. Ég hafði ekki heyrt annað eins bull og lét það ekki stöðva mig í að eignast mitt fyrsta barn um svipað leyti og ég var að hefja feril minn sem sjálfstætt starfandi söngkona. Þetta hljómar kannski ekki eins og einhver rosaleg áhætta, en mörgum fannst ég nú samt vera tefla framanum í tvísýnu og kannski hafði þetta einhver áhrif á atvinnutilboðin. Það verður þá bara að hafa. Ég sé ekki eftir neinu, enda er ég svo rík að eiga yndislega fjölskyldu og mér líður vel í einkalífinu. Ég hef aldrei farið í felur með mína fjölskylduhagi til að komast áfram. Mér dytti það ekki í hug.“

Býrðu yfir leyndum hæfileika? „Það má eiginlega segja að ég búi yfir þeim einstaka hæfileika að hafa skelfilega miklar áhyggjur. Ég varð eiginlega hálfgerð ofurhetja á því sviði eftir að ég varð mamma. Bragi maðurinn minn er algjör andstæða við mig, alltaf sultuslakur, og við gerum óspart grín að því hvað við erum ýkt sitt í hvora áttina. Það er nauðsynlegt að geta hlegið svolítið að sjálfum sér, það er svo gott fyrir sálina.“

Hver yrði titillinn á ævisögunni? „Tvímælalaust „Er ég að gleyma einhverju?“ Ég er nefnilega á sífelldu flakki og mér finnst ég alltaf vera að gleyma einhverju einhvers staðar, lyklum, vegabréfinu eða nótum,“ segir hún og hlær.

Hver myndi leika þig í bíómyndinni? „Augljósi kosturinn er vitaskuld Hulk Hogan. Samuel L. Jackson kemur líka sterklega til greina.“

Í hvaða óperu hefur þér þótt skemmtilegast að syngja? „Ég get ekki nefnt einhverja eina, enda er það nú bara oft þannig að maður heldur eiginlega mest upp á þá óperu sem maður er að syngja í hverju sinni.“

Í hvaða óperuuppsetningu hefðirðu viljað syngja? „Það hefði nú verið skemmtileg upplifun að taka þátt í frumflutningi á einhverri óperu eftir Mozart, Strauss, Donizetti, Verdi eða einhvern annan meistara og fá að vinna með tónskáldinu sjálfu og kynnast verkinu þannig. Klassískir tónlistarmenn fá svo sjaldan að vinna með núlifandi tónskáldum, sem er synd því það er ómetanlegt að fá sýn skjáldanna sjálfra á tónheim þeirra.“

Hvaða plötur eru í uppáhaldi? „Mér finnst gott að setja djass, hljóðfæratónlist eða tónlist sem ekki er klassísk á fóninn í lok dags til að slaka á, til dæmis Lost Tapes með Cheet Baker eða The Bossa Nova Years með Stan Getz. Ég á nefnilega erfitt með að hlusta á óperur eða lög sem eru sungin án þess að fara pæla í söngtækninni og hvað mætti betur fara og þá er maður auðvitað ekki að gefa sér tíma til að slaka á. Auðvitað held ég samt alveg upp á ýmsar klassískar plötur. Nánast allar sönglagaupptökur með Dietrich Fischer Dieskau sem dæmi; Lulu eftir Alban Berg þar sem Teresa Stratas syngur aðalhlutverkið og Pierre Boulez stjórnar Orchestre de l‘Opera de Paris. Í mestu uppáhaldi eru þó Piano concertos númer 1 og 3 eftir Tchaikovsky sem ég fékk þegar ég var þrettán ára, en þar spilar Andrei Gavrilov og Vladimir Ashkenazy stjórnar.“

Bestu og verstu íslensku plötur allra tíma? „Til dæmis Kókostré, Hvítir mávar og Hve glöð er vor æska með Stuðmönnum, Deluxe með Ný danskri, 1975 með Gunnari Þórðarsyni, Innri með Stórsveit Reykja-víkur og Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni er uppáhaldsjólaplatan. „Uppáhalds versta platan“, og þetta segi ég með fullri virðingu, er síðan Viltu bjór væna, með Fræbbl-unum.“

Hvað geturðu sjaldnast staðist? „Ískaldan, freyðandi bjór. Hann hressir, bætir og kætir. Mikið hlakka ég til að mega aftur fá mér einn góðan eftir þessa meðgöngu,“ segir hún full tilhlökkunar.

„Það má eiginlega segja að ég búi yfir þeim einstaka hæfileika að hafa skelfilega miklar áhyggjur.“

Hvaða fræga einstakling, lífs eða liðinn, í mannkynssögunni myndirðu vilja bjóða í kaffi, af hverju og um hvað myndirðu vilja tala við viðkomandi? „Ég væri ekkert á móti því að spjalla við Mozart, spyrja hann út í óperurnar og hlutverkin sem ég hef unnið í og er að vinna í, til að vita eftir hverju hann er að sækjast. Svo myndi ég plata hann upp í stofu til að leika almennilega undir hjá mér og gefa mér ráð. Eftir það byði ég upp á mat og drykk í von um að fá hann aftur í heimsókn. Richard Strauss mætti alveg koma líka. Ég veit nú samt ekki hvort hann yrði jafnhress og Mozart, það þyrfti bara að koma í ljós,“ segir hún og skellir upp úr.

Instagram eða Snapchat? „Instagram. Mér finnst gaman að skoða myndir og fá hugmyndir. Snappið er geggjað en endist ekki. Ég nota það meira til að skiptast á videóum við vinkonurnar. Annars nota ég lítið.“

Hvaða tjámerki (emoji) notarðu oftast? „Hláturkarlinn, þessi sem grenjar úr hlátri.“

Áttu einhverja skemmtilega sögu úr bransanum svona í lokin? „Heyrðu já, það var ferlega skemmtileg eldri kona sem hélt reglulega partý í tengslum við uppfærslurnar í Metropolitan-óperunni. Sagan segir að fyrir mörgum árum hafi þessi góða kona boðið einum ráðamönnum óperunnar í partý. Sá á að hafa verið haldin mikilli banana-fóbíu. Okkar kona vissi víst af því og gerði sér lítið fyrir og tók á móti greyið manninum í bananabúningi,“ segir Dísella og skellir upp úr. „Ég sel þetta samt ekki dýrar en ég keypti það!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -