Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Verstu mistökin að missa matinn í gólfið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjónvarpsstjarnan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er flestum landsmönnum vel kunn en hún gaf nýverið út bókina Hvað er í matinn. Þar er hægt að finna einfaldar uppskriftir gómsætra rétta fyrir öll kvöld vikunnar.

Hvað er í matinn er þriðja matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar en fyrri bækur hennar, Í matinn er þetta helst og Seinni réttir, komu út fyrir rúmum áratug. Tildrög þess að Jóhanna Vigdís settist aftur við skrifin var matreiðslunámskeið sem hún sótti í Flórens en margir réttanna eru undir ítölskum áhrifum.

„Mig langar líka að hvetja sem flesta áfram í baráttunni gegn matarsóun,“ segir Jóhanna Vigdís aðspurð um hvatann að baki bókinni.

Þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina.

„Ég var með matreiðsluþátt á RÚV árið 2009 eftir að ég gaf út matreiðslubækurnar. Það var svo merkilegt að þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina. Á einhvern hátt er eins og umræðan um mat og matreiðslu sé á hlutlausu svæði. Þegar ég byrjaði að hugsa um þessa bók var fyrsta hugsun mín: Hvað sameinar? Hver er algengasta spurningin á hverju heimili? Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessari ákvörðun, að hafa eitthvað í matinn sem freistar, kætir og sameinar. Þannig varð bókin til.“

Af pönnunni og niður á gólf

Aðspurð um ráð fyrir nýgræðinga innan eldhússins ítrekar Jóhanna Vigdís svo að mikla ekki hlutina fyrir sér.

„Þeir sem eru að halda sín fyrstu jól sjálfir eiga að setja einfaldleikann á oddinn. Hafa til dæmis bara einn rétt eða bara eitthvað sem menn kunna að búa til. Ekki að búa til flækjustig ef það er óþarfi. Jólin snúast fyrst og fremst um samveru og að njóta, og einfaldleikinn er alltaf bestur. Auðvitað gera allir mistök og að mínu mati hafa mín verstu mistök verið að missa matinn í gólfið eins og gerðist hérna um árið hjá mér þegar við Guðmundur vorum nýbyrjuð að búa og systir mín var í mat. Allt fór af pönnunni hægt og rólega niður á gólf, beint á teppið. Við bjuggum til þessar fínu samlokur á eftir.

Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri.

- Auglýsing -

Annars höfum við alltaf kalkún með öllu tilheyrandi á aðfanagadagskvöld. Fylling, heimatilbúið rauðkál, brúnaðar kartöflur og steiktar og sósur við allra hæfi. Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri, sem minn yndislegi tilvonandi tengdasonur á allan heiðurinn af. Heimtailbúinn ís í eftirrétt með möndlu er svo alltaf á sínum stað. Hann er alltaf sá alvinsælasti á mínu heimili, alla daga ársins.“

Meðfylgjandi er uppskrift frá Jóhönnu að risotto, fullkominn forréttur.

Hátíðlegt Saffran-risotto

- Auglýsing -

Risotto er til í ótal myndum, þetta er ein þeirra og hún er virkilega góð. Ef þið notið humar í skel skuluð þið alls ekki henda skeljunum því þær eru frábærar til að sjóða í súpu næsta dag og fá þannig góðan kraft. Ef þið eigið ekki saffran má alltaf bjarga sér með túrmeriki.

Jóhanna borðar risotto með humri í forrétt á jólunum.

humar / risarækja, magn eftir smekk
1 laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
2 msk. smjör
250 g risotto-hrísgrjón
1,2 l grænmetissoð
saffranþræðir
100 g parmesan-ostur

Ef þið eruð með frosinn humar eða risasækju þarf að láta skelfiskinn þiðna. Ef þið eruð með humar í skel, takið þá fiskinn úr skelinni. Skerið lauk og hvítlauk smátt. Hitið olíu og 1 msk. af smjöri í potti og steikið laukana í blöndunni þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Blandið nú ósoðnum hrísgrjónum saman við í smáum skömmtum og setjið grænmetissoð á milli þar til það gufar upp. Það er galdurinn við risotto, að hræra stöðugt en þetta tekur um 20 mínútur. Blandið saffrani saman við svo risottoið fái fallegan lit. rífið parmesan-ostinn yfir og blandið saman við.

Bræðið 1 msk. af smjöri á pönnu og setjið svolítið saffran saman við. Steikið skelfiskinn á öllum hliðum upp úr saffransmjörinu í stutta stund. Blandið öllu saman og berið fram með brauði og parmesan-osti.

Myndir / Magnús Hjörleifsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -