Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-7.8 C
Reykjavik

Veruleiki barna annar en áður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur hjá Sálstofunni, veit meira um kvíða barna og ungmenna en flestir landsmenn.

Starf Berglindar felst fyrst og fremst í greiningu og meðferð á fjölbreyttum vanda og frávikum í hegðun og líðan barna en einnig í ráðgjöf til foreldra og fagaðila. Hún segir meirihluta vinnu sinnar snúast um kvíða í einhverri mynd, þar sem kvíði barna fari vaxandi og snerti flest mál með einhverjum hætti. Berglind hefur áralanga reynslu af ráðgjöf og hefur haldið fjölmörg vel sótt námskeið og fyrirlestra tengda málefnum barna og unglinga. Hún segir námskeiðin og kvíðavinnuna almennt fyrst og fremst ganga út á fræðslu. „Að vita hvað maður er að glíma við og af hverju, er jafnmikilvægt og að vita hvernig er svo hægt að takast á við vandann. Þá er líka mikilvægt fyrir foreldra og börn að vita hvað þarf að forðast að gera og hvað ekki.Ég held að flestir sálfræðingar sem hafa haldið námskeið eða fyrirlestur um kvíða séu með fullt út úr dyrum.  Maður á alltaf von á að koma að hálftómu húsi einhvern tíma og að fólk sé búið að heyra nóg um kvíða barna en það virðist að minnsta kosti ekki vera komið að því ennþá.“

Kvíði er eðlileg tilfinning 

Berglind segir kvíða hafa margar og ólíkar birtingarmyndir. „Helstu einkenni hans eru ýmis konar áhyggjur, feimni gagnvart fólki og /eða aðstæðum, hræðsla gagnvart ýmiss konar aðstæðum og þrálátar hugsanir. Kvíða fylgja gjarnan ýmis líkamleg einkenni, s.s. hraður hjartsláttur, magaverkur eða hröð öndun. Kvíðin börn og ungmenni forðast gjarnan aðstæður sem valda þeim kvíða og ef þau þurfa að fara í slíkar aðstæður reyna þau yfirleitt að komast úr þeim eins fljótt og þau geta og líður þá oft eins og þau hafi rétt sloppið við eitthvað sem er upplifað mjög hættulegt. Þannig getur myndast vítahringur sem vindur oft upp á sig ef ekkert er að gert.“

Kvíði er í grunninn eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir einhvern tíma og er okkur nauðsynlegur. Hann verður hins vegar að vanda þegar hann er farinn að birtast of oft, við aðstæður sem eru ekki hættulegar og er farinn að trufla barn/ungmenni í sínu daglega lífi og farinn að koma í veg fyrir að það taki þátt og/eða njóti þess sem það tekur sér fyrir hendur.“

Veruleiki barna annar en áður

Kvíði er nokkuð algengur að sögn Berglindar, en hún segir mörg börn glíma við einhver einkenni kvíða í lengri eða styttri tíma. „Eins og ég segi, þá kemur einhvers konar kvíði inn í meirihluta mála sem við veitum meðferð við á stofu. Stundum erum við fljót að laga það sem truflar, stundum tekur það lengri tíma. Veruleiki barna og unglinga er annar en hann var og felur í sér aðrar áskoranir og verkefni en þegar við vorum ung. Umræða um tilfinningar og líðan er án nokkurs vafa opnari en hún var og algengara að fólk ræði almennt þau mál við börnin sín. Á hinn bóginn er auðvelt að falla í þá gryfju að vilja að börnunum okkar líði aldrei illa, sem er auðvitað óraunhæf krafa og getur leitt til þess að venjuleg líðan og viðbrögð eru orðin að vanda í huga foreldra.“

Mikilvægast að afla sér upplýsinga

Aðspurð um ráð fyrir foreldra sem grunar að barnið sitt gæti þjáðst af kvíða, segir Berglind mikilvægast að afla sér upplýsinga og fræðslu. „Algengustu hindranir foreldra sem ég rekst á eru tvenns konar; að átta sig ekki á hvar/hvenær kvíði er farinn að trufla og leyfa barni að „sleppa“ við aðstæður sem geta undið upp á sig. Hins vegar að ætla alls ekki að leyfa kvíða að stjórna og krefjast því of mikils af barninu sem getur líka viðhaldið vandanum og gert hlutina verri. Það er því mikilvægt að afla sér upplýsinga um eðli kvíða og fá ráð hjá fagfólki ef einföld inngrip duga ekki til“ segir Berglind að lokum.

Lesið umfjöllunina í heild sinni í 15.tölublaði Vikunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -