Matur kemur oftar en ekki við sögu í jólamyndum.
Góðverk á jólunum
Little Women er ein af þessum klassísku jólamyndum sem sumir kjósa að horfa á á hverju ári. Myndin segir frá systrunum Jo, Meg, Beth og Amy ásamt móður þeirra en faðir þeirra er fjarverandi að berjast í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum. Þetta er náin og samheldin fjölskylda sem þó þarf að glíma við erfiðleika, eins og aðrar fjölskyldur. Eitt hjartnæmasta atriði myndarinnar er þegar konurnar ákveða að gefa allan hátíðarmatinn sem þær hafa safnað fyrir í marga mánuði og búið er að matreiða eftir kúnstarinnar reglum. Nágrannar þeirra voru nefnilega hjálparþurfi. Það reynist þeim erfitt að pakka saman öllu veisluborðinu án þess að hafa svo mikið sem snert við matnum en viðbrögð nágranna þeirra við þessari gjöf gerir það þess virði.
Fjölskyldudrama
Í Family Stone (aðalmynd) fylgjumst við með hrakfarajólum Stone-fjölskyldunnar. Elsti sonurinn, Everett, hefur boðið kærustu sinni, Meredith, heim um jólin með það fyrir augum að biðja hennar yfir hátíðarnar með glæsilegum hring. Hún fær miður góðar móttökur og ákveður í örvæntingu að bjóða systur sinni að koma til að dreifa athyglinni. Allt gengur á afturfótunum og Meredith er svo stíf að allt sem hún segir kemur út á versta mögulega veg og móðgar meirihlutann af fjölskyldunni. Á jóladag biður Everett móður sína um hringinn sem er erfðargripur en hún neitar honum upphaflega um hann. Þegar henni snýst síðan hugur eru farnar að renna tvær grímur á Everett og hann er ekki viss hvort hann vilji enn þá giftast Meredith.
Óætur kalkúnn
Clark Wilhelm Griswold langar að halda hin fullkomnu Griswold-fjölskyldujól. Eftir margra mánaða undirbúning býður hann bæði foreldrum sínum og tengdaforeldrum og einnig Louis, frænda sínum, og elliærri frænku sinni, Bethany. Honum að óvörum mætir líka groddalegi frændi konu hans, Eddie, ásamt allri fjölskyldu sinni í húsbílnum sínum. Clark er búinn að skreyta húsið með meira en 20.000 ljósaperum og ná í risastórt jólatré sem passar eiginlega ekki inn í stofuna. Þegar þau eru loks sest við borðstofuborðið, búin að fara með borðbæn og ætla að gæða sér á kræsingum þá er kalkúnninn ekki eins og hann átti að vera. Um leið og Clark sker í fuglinn þá svo gott sem springur hann, með tilheyrandi búkhljóði, því hann er algjörlega orðinn að engu að innan.
Pítsuveisla í limmósínu
Í Home Alone 2: Lost in New York er Kevin McCallister mættur aftur. Í þetta skiptið fer hann óvart í aðra flugvél en fjölskylda sín og endar í New York-borg, í stað Flórída. Hann er ekki lengi að gera borgina að leikvelli sínum, enda með nóg af peningum og kreditkortum. Eitt minnisstætt atriði er þegar Kevin keyrir um borgina í limmósínu og hámar í sig ostapítsu á meðan, mjög grand á því. Kevin er ekki einn lengi því hinir illræmdu bjánabófar, Harry og Marv, enn þá í sárum eftir síðustu viðskipti sín við Kevin, eru líka mættir á svæðið og ætla núna að fremja rán aldarinnar.
Höfundur / Hildur Friðriksdóttir