Vilborg Davíðsdóttir var að senda frá sér skáldsöguna Undir Yggdrasil þar sem hún heldur áfram að segja sögur kvenna á landnámsöld. Í þessari bók er söguhetjan Þorgerður Þorsteinsdóttir, sonardóttir Auðar djúpúðgu sem Vilborg skrifaði þríleik um. Sterk kona sem fer sínar eigin leiðir, brýtur hefðir, upplifir djúpa sorg og menntar sig í völvufræðum.
Þótt sagan gerist árið 900 talar umfjöllunarefnið beint inn í samtímann, enda segir Vilborg að hlutskipti manneskjunnar sé ekki tímabundið, við séum alltaf að fást við okkur sjálf og tilfinningar okkar. „Mér finnst þessi horfni heimur landnámsfólksins svo gríðarlega heillandi, sér í lagi yfirnáttúrulegi hluti hans,“ segir Vilborg þegar hún er spurð hvernig á því standi að hún haldi áfram að segja sögu ættfólks Auðar djúpúðgu í Undir Yggdrasil. „Þegar ég ákvað að skrifa um Auði á sínum tíma tók ég þá stefnu að velja þá gerð sögunnar um hana sem segir að hún hafi verið kristin. Þannig að þegar ég hef verið að sýna heiðna trú í þríleiknum hefur það alltaf verið í gegnum augu aukapersóna og áhorfenda. Ég hef ekki fyrr en núna haft frelsi til að sýna heiðinn sið innan frá, frá sjónarhorni aðalpersónunnar Þorgerðar sem þráir það heitast af öllu að nema kunnáttu af völvu og verða ein slík sjálf. Mér hefur alltaf fundist gaman að skrifa og alltaf fundist ég vera í besta starfi í heimi, en ég hef sjaldan skemmt mér eins vel og á meðan ég var að skrifa þessa bók.“
Samkynhneigðir sjást ekki í sagnaarfinum
Talandi um konur sem gera hluti sem ekki tíðkaðist að konur gerðu á þessum tíma þá virðast þær heilla Vilborgu mikið. Hefur hún femíníska hugsun að leiðarljósi þegar hún velur sér viðfangsefni?
„Já, þegar ég er að skrifa skiptir það mig máli að varpa ljósi á sögur og hlutskipti kvenna,“ segir hún. „Vegna þess að þær hafa auðvitað staðið í skugga karlaveldisins alla tíð. Þetta er helmingur mannkyns en allar bókmenntir, allar frásagnir og öll sagnfræði þar til mjög nýlega, er skrifuð af körlum um karla og fyrir karla. Það að vera kona sést ekki í sögunni almennt og það skiptir mig máli að sýna hvernig lífið hefur verið fyrir þennan helming mannkynsins og auðvitað ekki bara konur heldur samfélagið allt. Ég vil lyfta upp sjónarhorni þeirra og annarra sem hafa enga rödd, til dæmis barna og fólks með fötlun, þeirra sem eru misrétti beittir. Í þessari bók er ég í fyrsta skipti með persónu sem er samkynhneigður karl og það er fólk sem við sjáum ekki heldur í sagnaarfinum, þetta er ósýnilega fólkið sem ég vil gefa rödd. Mér finnst það mjög mikilvægt.“
Í Undir Yggdrasil er einmitt fjallað um ýmis fleiri mál sem eru ofarlega á baugi í samtímanum, til dæmis kynferðisbrot gegn barni, einelti og móður sem ekki tengist börnum sínum. Þannig að þótt Vilborg skrifi sögu sem gerist árið 900 er hún að fjalla um hluti sem eru brennandi í umræðunni í dag en ítarlegt viðtal er við hana í nýjustu Vikunni þar sem hún talar einnig um hvernig sorgin hafi opnað henni nýja sýn.
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >