Vestrar eru enn afar vinsælir og hér eru nokkur nýleg dæmi.
Kjarkaðar konur
Godless er ný sjö þátta sería úr smiðju Netflix en þættirnir voru framleiddir af Steven Soderbergh. Þættirnir gerast árið 1884 í Nýju-Mexíkó. Stórhættulegi útlaginn Frank Griffin er á höttunum eftir Roy Goode sem stal frá honum gulli. Roy þessi var áður hluti af bófagengi Franks og Frank leit á hann sem son áður en Roy stakk hann í bakið. Roy felur sig á býli ekkjunnar Alice Fletcher sem býr í útjaðri bæjarins La Belle. Íbúar La Belle eru nær eingöngu konur því allir karlmenn bæjarins létust í hræðilegu námuslysi nokkrum árum áður. En hvernig verja nokkrar konur sig gegn manni eins og Frank?
Skemmtigarður framtíðarinnar
Sjónvarpsþættirnir Westworld eru byggðir á samnefndri kvikmynd eftir Michael Chrichton. Þeir gerast í framtíðarheimi og Westworld er í raun sýndarveruleikaskemmtigarður sem lítur út eins og villta vestrið. Þar geta gestir hagað sér eins og þeim sýnist innan um afar raunveruleg vélmenni í alls kyns hlutverkum. Þættirnir eru stjörnum prýddir en Anthony Hopkins leikur skapara garðsins, Ed Harris leikur ruddalegan gest og þau Evan Rachel Wood, Thandie Newton og James Marsden leika öll vélmenni, eða gestgjafa eins og þau eru kölluð í þáttunum.
Í leit að ástinni
Í Slow West kynnumst við ungum Skota sem ferðast alla leið til villta vestursins í Bandaríkjunum í leit að Rose, konunni sem hann elskar. Á ferð sinni kynnist hann útlaganum Silas sem slæst í för með honum sem leiðsögumaður og verndari. Jay veit hins vegar ekki að Rose og faðir hennar eru eftirlýst og fé sett til höfuðs þeirra, tvö þúsund dollarar lífs eða liðin.
Mannaveiðari og þræll
Tarantino-vestrinn Django Unchained gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna skömmu áður en þrælastríðið braust út. Þýski læknirinn og mannaveiðarinn dr. King Schultz er á höttunum eftir hinum morðóðu Brittles-bræðrum þegar hann hittir þrælinn Django í Texas og fær hann til að aðstoða sig við leitina gegn loforði um frelsi hans og eiginkonu hans, Broomhildu, en hún er í eigu grimma plantekrueigandans Calvin Candie. Django og Schultz láta sér ekki nægja að handsama Brittles-bræðurnar heldur ná einnig að klófesta marga af hættulegustu glæpamönnum suðursins áður en þeir snúa sér að frelsun Broomhildu.
… mannaveiðarinn dr. King Schultz er á höttunum eftir hinum morðóðu Brittles-bræðrum þegar hann hittir þrælinn Django í Texas og fær hann til að aðstoða sig við leitina gegn loforði um frelsi hans og eiginkonu hans.
Hefnd og svik
True Grit kom fyrst út árið 1969 en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Charles Portis. Þessi útgáfa Coen-bræðra frá árinu 2010 vakti mikla lukku meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Sagan gerist árið 1877 og segir frá unglingsstúlkunni Mattie Ross. Faðir hennar er myrtur á hrottalegan hátt af undirmanni sínum sem flýr af vettvangi með tvo hesta og gull föður hennar. Mattie vill tafarlausa hefnd og leitar til hins gamalreynda og harnaða lögreglumanns Rooster Cogburns. Hann hafnar fyrst um sinn beiðni hennar en hún nær sínu fram á endanum. Þegar annar lögreglumaður, LaBoeuf sem er einnig á höttunum eftir Chaney, mætir á svæðið vandast málin. Laboeuf og Rooster taka höndum saman til að hafa uppi á Chaney, gegn vilja Mattie, og þar með hefst hættuleg för þremenninganna til að ná fram hefndum.
Höfundur / Hildur Friðriksdóttir