Föstudagur 27. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Vörusvik í rúminu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Typpastærð er svolítið eins og stærðin á húsnæðinu manns; hefur engin svakaleg áhrif nema það sé allt, allt of lítið eða allt, allt of stórt. Meðalvegurinn er sem sagt fínn í þessu eins og öðru. En hver er meðalvegurinn og er hægt að lá einhleypri konu sem er að leita sér að einnar nætur gamni og finnst hún hafa verið illa svikin þegar smáreður verður á vegi hennar?

 

„Það er ekki hægt að sjá bara eitt typpi um ævina! Það bara er ekki hægt,“ fullyrti ein vinkona mín í saumó hér um árið. Henni var mikið niðri fyrir því við vorum nokkrar í hópnum búnar að vera með sömu kærustunum lengi og ein okkar hafði bara átt þennan eina kærasta frá þvi hún var í gaggó. Ég skildi ekki alveg æsinginn í henni vinkonu minni á þessum tíma en ég skildi hann mörgum árum seinna þegar ég var hætt með kærastanum sem ég hafði verið með í rúman áratug. Og já, bara búin að sjá þetta eina typpi í allt of langan tíma.

En hvað með það, ég var ánægð með það og hafði ekki yfir neinu að kvarta þegar kom að þessu allra heilagasta. Fyrr en einn daginn þegar kærastinn ákvað að fleiri konur mættu sjá það sem ég hélt að væri ætlað mér einni. En það er ekki umræðuefni vikunnar.

Ég er í nokkrum saumaklúbbum sem eiga það allir sameiginlegt að vera fjölbreyttir og skemmtilegir; þ.e. konurnar sem ég er með í þessum saumaklúbbum eru á ýmsum aldri og koma úr ólíkum áttum. Sumar eru fráskildar, sumar giftar eða í sambúð, nokkrar einhleypar og aðrar eiga vini með ávinningi (e. friends with benefits).

Eins og gefur að skilja er ýmislegt rætt, allt frá kökuuppskriftum upp í kynlíf. Ég hafði margoft sagt við stelpurnar að myndi ég kynnast yndislegum manni sem væri góður við mig, góður við börnin mín, skemmtilegur og já, ekki algjör eymingi, þá myndi engu máli skipta hvernig hann væri vaxinn niður. Sú fullyrðing mín féll í misjafnan jarðveg en allar voru þær sammála um að stærðin skipti máli. Engin þeirra myndi sætta sig við pínkupons.

Vinkonan fann til í vinkonunni

- Auglýsing -

Mér hefur aldrei fundist útlitið vera það sem skiptir máli, þótt ég geri vissulega kröfur um ákveðna persónueiginleika, hreinlæti og sjálfsvirðingu. Ég hef alveg orðið skotin í lágvöxnum mönnum, hávöxnum, sköllóttum, hárprúðum mönnum í toppformi og mönnum með bumbu. En ekki mönnum sem koma illa fram við annað fólk og dýr, ganga um með aleiguna í plastpoka eða fara sjaldan eða aldrei í sturtu.

Það liðu nokkrir mánuðir frá því ég skildi við manninn minn þar til mér fannst ég tilbúin að fara að líta í kringum mig. Skoða markaðinn. Og þetta var skemmtilegt tímabil. Ég prófaði alls konar; stutt sambönd, skyndikynni, aðeins lengri sambönd og vini með ávinning. Allt voru þetta indælis menn, líka þeir sem urðu bara einnar nætur gaman. En ég áttaði mig á því að ég varð að gjöra svo vel og éta ofan í mig það sem ég hafði sagt við vinkonur mínar. Mér finnst stærðin skipta máli.

Ég held samt að það sé mýta að okkur konur dreymi um risastór typpi því það er ekki gott að fá svoleiðis inn í sig. Það er ekkert þægilegt við það að finnast eitthvað vera að stingast í heilann í manni. Ein saumaklúbbsvinkona mín sagðist til dæmis hafa átt kærasta sem var með svo risavaxinn lim að þau gátu ekki stundað kynlíf. Það var einfaldlega bara ekki hægt; hann kom honum ekki inn og ef hann náði því að einhverju leyti þá var það of sársaukafullt fyrir vinkonu mína. Og vinkonuna hennar … Svo það er þessi blessaði meðalvegur í þessu eins og öllu öðru. Og meðalvegurinn er hreint ekki svo slæmur.

- Auglýsing -

One size fits all … O, nei!

Heimildum ber ekki alltaf alveg saman um meðalstærð typpa en þó hafa margar rannsóknir verið gerðar til að reyna að komast að einhverri niðurstöðu. Ein slíkra rannsókna var gerð á áttatíu karlmönnum, og birt í Journal of Urology.

Niðurstöðu hennar voru þær að linur limur væri að meðaltali um sjö til tíu sentimetrar og meðalummál um níu til tíu sentimetrar. Limur í reisn væri að meðaltali um tólf til sextán sentimetrar og meðalummálið um tólf sentimetrar. Þó töldu um 45% karlanna sem tóku þátt í rannsókninni að þeir væru með lítið typpi. Og margir karlar eru óöryggir með stærðina. Sem er kannski ekkert skrýtið. Þeir heyra örugglega talað um „dyrabjöllutyppin“ og sjá klámmyndaleikarana með risastóru bellina sem konurnar á skjánum líta girndaraugum. En þessir gaurar landa örugglega ekki hlutverkunum út á leikhæfileikana, heldur frekar út á risabellina sem eru í kringum 24 sentimetrar eða svo.

Svo er auðvitað misjafnt hvernig fólk skilgreinir stærð. Sumar konar taka þykktina fram yfir lengdina og rannsóknir hafa sýnt að þykktin hefur meira að segja um kynferðislega örvun heldur en lengdin. Í rannsókn sem birt var í BMC Women´s Health sögðu 45 konur af þeim 50 sem tóku þátt að þykkt limsins skipti mestu máli á meðan fimm konur sögðu að þeim þætti betra að limurinn væri langur. Persónulega finnast mér þessi löngu, mjóu typpi vera eins og gulrót sem er verið að pota þarna inn og út. Má ég þá frekar biðja um kúrbít, takk.

Sumar konar taka þykktina fram yfir lengdina og rannsóknir hafa sýnt að þykktin hefur meira að segja um kynferðislega örvun heldur en lengdin.

Að auki má heldur ekki gleyma því að við konur erum misjafnar. Meðallengd legganga ku vera um átta sentimetrar og lengist eftir stærð limsins. Þá er breidd þeirra mismikil og þau víkka við kynferðislega örvun. Það getur haft áhrif á fullnæginguna hjá báðum aðilum. Séu leggöngin í þrengra lagi getur það örvað typpin sem eru í minna lagi og að sama skapi geta stóru typpin misst af stuðinu séu leggöngin víð. Hér gætu grindarbotnsæfingar komið að gagni.

Lillemann, í orðsins fyllstu merkingu

Ég hallast að því að við einhleypu vinkonurnar spáum aðeins meira í stærðina af því að við erum að þreifa fyrir okkur á markaðnum. Sumar að reyna að finna þann eina rétta. Ef maður myndi rekast á hann, þennan sem hefur „allan pakkann“, þá myndi maður örugglega ekki hugsa um þessa hluti. Held ég alla vega.

Ég trúi því að það skipti meira máli að finna einhvern sem er góður maki og vinur manns, góður pabbi, tekur fullan þátt í öllu sem snýr að fjölskyldunni og heimilinu og bætir upp fyrir lítið typpi með töktum sínum í rúminu. En, og hér legg ég áherslu á orðið en, þegar um einnar nætur gaman er að ræða, eða jafnvel fyrsta skiptið í þeirri von um að fleiri fylgi síðar, þá eru vonbrigðin töluverð þegar lillemann er lille, í orðsins fyllstu merkingu.

Við einhleypu skvísurnar höfum reynt að finna einhverja samsvörun á milli litlu typpanna og útlits eigendanna, t.d. hvort skóstærðin gefi einhverja vísbendingu eða hendurnar. En höfum komist að því að það er ekki hægt að ganga að neinu vísu í þeim efnum. Það hafa verið gerðar rannsóknir, og við stelpurnar vissulega gert okkar eigin, sem hafa ekki sýnt fram á að hægt sé að tengja typpastærðina við neitt ákveðið. Og nú hugsa kannski einhverjir að það hljóti samt að vera samband á milli kynþáttar og stærðarinnar en heimildum ber ekki alveg saman í þeim efnum. Sumar rannsóknir segja nei, það sé ekkert samband á milli, á meðan aðrar segja að svo sé.

Skoskur smáreður

Ég hafði ekki sofið hjá í nokkra mánuði þegar ég fór að hitta gamla skólafélaga niðri í bæ. Besta vinkona mín sem er í þeim hópi var ákveðin í að koma mér á séns þetta kvöld. Hópurinn hittist á veitingastað og svo var farið yfir á stað þar sem var verið að spila live-tónlist. Við vinkonurnar ákváðum að kíkja eitthvert annað. Við vorum nýkomnar upp á Laugaveginn þegar vinkona mín tók í handlegginn á mér og dró mig yfir götuna, að hópi karlmanna sem voru greinilega að skemmta sér vel.

Þarna var hann ásamt félögum sínum; í skoskum þjóðbúningi eins og allir hinir í hópnum. Mér fannst hann fallegasti maður sem ég hafði augum litið. Hávaxinn, dökkhærður og karlmennskan uppmáluð. Bruce hét hann og var frá Skotlandi. Það neistaði strax á milli okkar. Ég var hálffeimin við hann til að byrja með því hann var svo ótrúlega myndarlegur; með þessi bláu, tindrandi augu og fallegt brosið náði alveg til augnanna. En ekki bara var hann myndarlegur, heldur var hann alveg ótrúlega skemmtilegur. Hann hafði mikinn áhuga á Íslandi og vissi heilmargt um land og þjóð; sagðist hafa komið hingað áður og ætti örugglega eftir að koma hingað aftur.

Kvöldið var ungt og hann bauð mér í drykk. Ég naut þess alveg í botn að vera þarna með honum. Hann kunni líka að daðra. Og kyssa. „Segðu mér nú satt. Eruð þið strákarnir í einhverju innan undir skotapilsunum?“ spurði ég. „Þú verður bara að komast að því sjálf,“ svaraði hann og blikkaði mig.

Svo ég bauð honum heim. Eitt leiddi af öðru og hann reif sig úr fötunum. En bíddu nú við! Þessi hávaxni maður, sem var byggður eins og grískur guð, með stórar og sterklegar hendur, dimmraddaður og með risastóra fætur var með agnarsmátt typpi. Ætti ég að líkja þessu við eitthvað þá var það um það bil helmingi minna en kokteilpylsa. Varla einn munnbiti. Vörusvik, hugsaði ég með mér. En ég lét á engu bera og hann bætti upp fyrir smæðina með ýmsu öðru og hann vantaði sko ekki sjálfstraustið.

„Ætti ég að líkja þessu við eitthvað þá var það um það bil helmingi minna en kokteilpylsa. Varla einn munnbiti.“

„Er þetta ekki gott? Er þetta ekki gott?“ kallaði hann þar sem hann hamaðist í að því er virtist heila eilífð. Ég stökk á fætur og hringdi á leigubíl fyrir hann; sagðist þurfa að vakna snemma næsta morgun. Að ég væri upptekin næstu kvöld og það væri leiðinlegt að ná ekki að hitta hann aftur áður en hann færi heim til Skotlands.

Eina sem ég fékk út úr þessu var núningssár þarna niðri og ég varð að sleppa spinning-tímunum í nokkra daga á eftir.

Seinna komst ég að því að til er svolítið sem kallað smáreður (e. micropenis) sem telst óeðlilega lítill limur. Smáreður á fullorðnum karlmanni er um fimm sentimetrar á lengd og talið er að um 0,6% allra karla í heiminum eigi við þetta vandamál að stríða. Líklega get ég hakað við boxið „Sofa hjá manni með smáreður“ eftir reynslu mína með Skotanum.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það ekki typpið sem gerir gæfumuninn í kynlífinu. Frammistaðan byggist á svo mörgu öðru; eins og sjálfstrausti, vellíðan og afslöppun. Svo er hægt að bæta við ýmsum hjálpartækjum til að auka á unaðinn og skemmtilegheitin. Það er meira að segja hægt að kaupa slíður til að setja utan um typpið til að þykkja það í samförum. Og svo er hægt að gera svo margt annað til að gera kynlífið ánægjulegt. Það þarf ekki bara að stinga typpi í leggöng til að það sé skemmtilegt. Og typpi eru alls konar. Þau eru lítil, stór, mjó, bogin, bein, þykk, bleik, brún, og svo framvegis.

Já, og á meðan ég man. Skotinn var í naríum. Enda veit ég ekki hvernig þetta hefði verið hefði hann ekki varið sig fyrir íslenska kuldanum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -