Þegar farið er í bústað er yfirleitt venjan að grilla mat. Því eru oft afgangar daginn eftir sem má nýta á annan hátt.
Hér eru ein útfærsla af því hvernig hægt er að breyta máltíð gærkvöldsins í hádegisverð daginn eftir. Hér notum við risarækjur en í staðinn væri upplagt að nota humar eða annan skelfisk eða bara afgangs grænmeti, grillað og ferskt.
Tortillakökur með grilluðum rækjum, kóríander og chili-hvítlaukssósu
1 dl olífuolía
4 hvítlauksgeirar
8 sólþurrkaðir tómatar
safi úr einni límónu
1 tsk. chili-flögur
sjávarsalt á hnífsoddi
1 tsk. nýmalaður pipar
200 g risarækjur, humar eða annar skelfiskur
2 dl sýrður rjómi, 18 %
2 tortillakökur
½ paprika, smátt skorin
5 skalotlaukar, eða önnur lauktegund,
grilllaðir í álpappír með smjöri og balsamediki
kóríander, gróft saxað
Setjið ólífuolíu, hvítlauk, tómata, límónusafa, chili-flögur, salt og pipar í matvinnsluvél og blandið vel saman. Ef hún er ekki til staðar þá er hvítlaukurinn pressaður eða skorinn smátt ásamt tómötunum og hinu bætt saman við.
Takið helminginn af kryddleginum og bætið rækjunum við. Látið þær liggja í a.m.k. kosti 30 mín. í kryddleginum áður en þær eru grillaðar. Þær þurfa mjög stuttan grilltíma, 2 mínútur á hvorri hlið. Blandið hinum helmingnum af kryddleginum saman við sýrða rjómann og bragðbætið með chili-flögum, salti og pipar.
Ef ekki er notuð matvinnsluvél við verkið verður önnur áferð á sósunni. Það gæti verið að þyrfti að hella aðeins vökva frá áður en sýrða rjómanum er blandað saman við.
Hitið tortillukökurnar á pönnu eða grilli, smyrjið sósunni á hana, dreifið svo rækjum, papriku og lauk ásamt kóríander yfir sósuna.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir