Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Asíureisa í súpuskál

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fátt er betra en heit og rjúkandi asísk núðlusúpa en slíkur matur er bæði nærandi fyrir líkama og sál, margar asískar súpur eru sérlega hollar og vel samsettar og í raun fullkomin máltíð.

Phó Ga – Víetnam
Phó er víetnömsk núðlusúpa með margslungnu bragði sem oftast inniheldur annaðhvort nautakjöt eða kjúkling. Súpan er vinsæll götumatur (e. street food) þar í landi, iðulega seld af götusölum með færanlegt eldhús og stóran súpupott. Phó varð seinna vinsæl í Vesturheimi þegar stórir hópar Víetnama flúðu land á tímum Víetnamstríðsins.

1 msk. olía
1 laukur, skrældur og skorinn í tvennt þversum
3 hvítlauksgeirar, skrældir og kramdir
4 cm biti ferskt engifer, skrælt og skorið í sneiðar
1½ l kjúklingasoð
½ l vatn
½ tsk. fennelfræ
4 negulnaglar
1 kanilstöng
1 stjörnuanís
½ chili-aldin, sneitt
700 g kjúklingalæri og leggir, með beini og skinnið tekið af
safi úr 1 límónu
1 msk. fiskisósa
200 g hrísgrjónanúðlur
3 vorlaukar, sneiddir
20 g mynta

Hitið olíu á pönnu yfir meðalháum hita. Setjið laukinn ofan í pottinn með sárið niður ásamt hvítlauknum og engiferinu. Steikið þar til hvítlaukurinn gyllist og laukurinn verður nánast brenndur á skurðarsárinu. Hellið kjúklingasoðinu út í pottinn og bætið við fennelfræjum, negul, kanilstöng, stjörnuanís og helmingnum af chili-aldininu. Setjið kjúklinginn út í, lokið pottinum og látið malla við hæga suðu í 40 mín., eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Veiðið kjúklinginn upp úr súpunni og setjið til hliðar og látið kólna. Rífið kjúklingakjötið af beininu og hendið beinunum. Hellið súpunni í gegnum síu og hendið hratinu. Hrærið límónusafa og fiskisósu saman við súpuna og haldið súpunni heitri yfir lágum hita. Sjóðið núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkningu, hellið vatninu frá og skiptið núðlunum á milli skála. Skiptið kjúklingakjötinu á milli skála og hellið súpunni yfir. Skreytið með vorlauk, myntu og afganginum af chili-aldininu.

Mísó ramen – Japan
Ramen hefur undanfarin ár tekið stökk í vinsældum utan heimalandsins, Japan, og margir veitingastaðir hafa opnað í Evrópu og Bandaríkjunum og helga sig súpunni. Í Japan eru ramen-staðir nánast óteljandi og ólíkt annarri þarlendri matargerð fylgir hún ekki ströngum reglum og er til í mörgum útfærslum, bæði eftir héruðum og hugmyndaauðgi kokksins.

1 l kjúklingasoð
½ l vatn
2 hvítlauksgeirar, kramdir
20 g engiferrót, sneidd
7 vorlaukar, sneiddir
15 g þurrkaðir shitake-sveppir eða aðrir þurrkaðir sveppir
4 egg
100 g snjóbaunir
40 g baunaspírur
2 msk. rautt mísómauk (mugi mísó)
2 msk. hvítt mísómauk (shiro mísó)
2 msk. mirin
1 msk. sojasósa
¼ tsk. chili-mauk (t.d. siriracha)
300 g ramen-núðlur
200-300 g tófú, skorið í teninga

Sjóðið nautasoð, vatn, hvítlauk, engifer, 4 vorlauka og þurrkaða sveppi í 20-30 mín. og sigtið síðan allt frá, hendið hráefninu en geymið soðið. Setjið vatn í pott og náið upp suðu, setjið eggin varlega út í vatnið með skeið þegar suðan kemur upp. Sjóðið í 6½ mín. og snöggkælið síðan eggin með því að veiða þau upp úr pottinum og leggja í ísvatn. Takið skurnina af og setjið til hliðar. Snöggsjóðið snjóbaunirnar og baunaspírurnar í 20 sek. og setjið þær síðan í ísvatnið. Hrærið saman mísómauk, mirin, sojasóu og chili-mauk í skál. Takið soðið af hitanum og hrærið mísóblöndunni saman við. Sjóðið núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkningu. Skiptið núðlunum í fjórar skálar, hellið súpunni ofan á og blandið tófúbitunum út í, skerið eggin í tvennt langsum og leggið tvo hluta ofan í hverja skál, setjið snjóbaunirnar, afganginn af sneidda vorlauknum ofan á og berið strax fram með skeið og matarprjónum. Gott er að hafa ristaða sesamolíu og siriracha-sósu á borðinu fyrir þá sem vilja.

- Auglýsing -

Umsjón / Nanna Teitsdóttir Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -