Föstudagur 25. október, 2024
1.5 C
Reykjavik

Avókadó er hollt og hentar vel í fjölbreyttar uppskriftir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hildur Rut Ingimarsdóttir gaf út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin 2016. Við fengum Hildi Rut til að deila nokkrum freistandi uppskriftum sem allar eiga það sameiginlegt að innihalda avókadó.

Áhugi Hildar á eldamennsku kviknaði snemma en útrásina fyrir matarástina fær hún í gegnum störf sín á samfélagsmiðlum. Tildrög bókarinnar Avocado spruttu þó upp í tengslum við lokaverkefni í margmiðlunarhönnun við Borgarholtsskóla.

„Lokaverkefnið var að gera bók en þar sem ég hef mikinn áhuga á matreiðslu ákvað ég að gera matreiðslubók. Í fyrstu var ekki ætlunin að gefa bókina út en kennarar mínir hvöttu mig eindregið til þess. En ég hef mikinn áhuga á grafískri hönnun, það var aðalatriðið með verkefninu. Ég ákvað snemma að láta bókina hverfast í kringum eitt hráefni og avókadó er í sérstöku uppáhaldi. Ávöxturinn er ekki bara góður heldur er hann líka einstaklega hollur og hentar í margar uppskriftir. Það eru margir sem þekkja ekki þá möguleika sem ávöxturinn býður upp á og mig langaði að deila þeim með öðrum. Í bókinni eru góðar og auðveldar uppskriftir sem allar eiga það sameiginlegt að innihalda avókadó í einhverri mynd.“

Uppskriftir

Hummus með avókadó og fetaosti

Hummus með fetaosti og avókadó. Tilvalinn á hrökkbrauðið og góður sem ídýfa fyrir grænmeti. Ég smyr þessum hummus stundum á fajitas-pönnukökur og set þá kjúkling og grænmeti á.

Hummus með avókadó og fetaosti.

½ dós kjúklingabaunir
½ msk. tahini
1 avókadó
safi úr 1 límónu
1 dl fetaostskubbur
3 msk. ólífuolía
1 msk. ferskt jalapeno
salt og pipar

Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og blandið mjög vel saman. Ég nota litla matvinnsluvél sem töfrasproti fylgir með en þið getið líka notað blandara eða töfrasprotann sjálfan.

- Auglýsing -

Fiski-taco með avókadósalsa og límónusósu

Þetta er einn af mínum uppáhaldsréttum. Ég geri oft tacos og þá finnst mér gott að nota risarækjur, bleikju eða löngu og það er alltaf fullt af avókadó með. Einnig finnst mér gott að grilla fiskinn.

Fiski-taco með avókadósalsa og límónusósu.

Fyrir 4

- Auglýsing -

bleikjuflak
400 g risarækjur
Explosion taco-krydd frá Santa Maria
salt og pipar
olía
mjúkar tortillur, minni gerðin
2 avókadó
1 tómatur
2 msk. kóríander
¼½ ferskt rauðkál
¼-½ hvítkál
rjómaostur

Límónusósa

1 dl sýrður rjómi
½ dl majónes
safi úr 1 límónu
½ tsk. rifinn límónubörkur
pipar og salt

Blandið öllu hráefninu vel saman og sósan er tilbúin.

Hitið ofninn í 200°C. Leggið bleikjuflakið á bökunarplötu klædda smjörpappír. Kryddið með Explosion taco-kryddinu en farið varlega í það því það er sterkt. Saltið og piprið eftir smekk.

Bakið bleikjuna í u.þ.b. 10 mínútur og skerið hana svo í bita.

Skolið risarækjurnar og kryddið með Explosion taco-kryddinu. Hitið olíu á pönnu og steikið risarækjurnar þar til að þær eru orðnar bleikar, passið að steikja þær ekki of mikið.

Skerið rauðkál og hvítkál í strimla og blandið saman. Skerið avókadó, tómata og kóríander smátt og blandið saman. Brjótið pönnukökurnar varlega saman og raðið þeim á ofngrind þannig að þær hangi niður og myndi taco-skeljar.

Hitið í 2-3 mínútur í ofni við 200°C.

Smyrjið pönnukökurnar með rjómaosti öðrum megin og setjið salatið á þær. Setjið avókadósalsa og raðið að lokum bleikjubitunum eða risarækjunum ofan á. Setjið límónusósuna yfir og skreytið með kóríander.

Súkkulaði- og avókadómús

Þessi mús kemur á óvart. Hún er svakalega gómsæt. Ef ykkur langar í eitthvað sem er sætt en samt í hollari kantinum er þetta málið. Það er líka hægt að skipta út suðusúkkulaðinu fyrir 70% súkkulaði og þá er hún enn þá hollari. Ég ber hana fram með kókosrjóma.

Súkkulaði- og avókadómús.

Fyrir 2-3

2 avókadó
110 g suðusúkkulaði
3 msk. kókosolía
1 ½ msk. kakóduft
2 msk. hunang
kókosrjómi

Bræðið súkkulaðið ásamt kókosolíunni yfir vatnsbaði. Á meðan setjið þið avókadó í matvinnsluvél, notið töfrasprota eða blandara og hrærið til það er orðið silkimjúkt.

Þegar súkkulaðið og kókosolían hefur bráðnað þá blandið þið öllu saman með töfrasprotanum. Mjög gott að bera fram með ferskum berjum og kókosrjóma eða venjulegum þeyttum rjóma.

Kókosrjómi

Það er hægt að kaupa hann í fernum og einnig er hægt að kaupa kókosmjólk í dós. Kælið hana vel og hellið kókosvatninu af. Sniðugt að geyma það og nota svo seinna í boost. Þeytið kókosrjómann þar til hann verður eins og þeyttur rjómi.

Myndir / Hildur Rut Ingimarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -