Hér kemur uppskrift að gómsætri böku með osti, vorlauk og sinnepi.
Í þessa böku var notaður port salut-ostur en það má skipta honum út fyrir annan bragðminni ost, t.d. havarti eða brie. Eins má nota harðan ost en þá er betra að rífa hann með grófu rifjárni frekar en að sneiða hann.
Búa má til skelina deginum áður og geyma hana óbakaða í forminu í kæli í 1 dag eða geyma hana óbakaða í frysti í allt að þrjá daga. Ef skelin er tekin beint úr frystinum þá er best að gera ráð fyrir lengri tíma við baksturinn.
Bökuna má bera fram heita eða kalda. Uppskriftin gerir u.þ.b. 8 sneiðar
Skel
190 g hveiti
120 g smjör, kalt og skorið í teninga
½ tsk. salt
½ dl kalt vatn
Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél og látið hana vinna í stuttum slögum þar til blandan er orðin kornótt og minnir á grófa brauðmylsnu. Setjið deigið í stóra skál. Bætið köldu vatni saman við í skömmtum og blandið því saman við með höndunum, ef deigið er mjög þurrt gæti þurft meira kalt vatn.
Setjið plastfilmu yfir skálina og setjið í kæli í a.m.k. 30 mín. Hitið ofn í 180°C og smyrjið 25 cm bökunarform með skeljamynstri og sáldrið hveiti yfir. Takið deigið úr kæli og setjið á hveitistráðan flöt og látið standa við stofuhita í nokkrar mínútur.
Sáldrið hveiti yfir deigið og byrjið að fletja það út með kökukefli, ef það er mjög hart er gott að berja það með keflinu og halda áfram að fletja út þar til það verður u.þ.b. 3 mm að þykkt. Leggið deigið yfir bökunarformið og þrýstið deiginu inn í kantana, skerið umfram deigið frá. Setjið skelina í kæli í 10-15 mín. svo að smjörið í deiginu harðni aftur, þá eru minni líkur á að skelin skreppi saman í ofninum.
Takið bökuna úr kæli, notið gaffal til að stinga í botninn, leggið bökunarpappír yfir og farg ofan á (t.d. þurrkaðar baunir). Bakið í miðjum ofni í 15-20 mín., takið þá fargið og pappírinn af og bakið í 5-8 mín. til viðbótar eða þar til skelin er orðin fallega gyllt á litinn.
Fylling
500 ml rjómi
3 egg
3 eggjarauður
½ tsk. salt
½ tsk. pipar
1 msk. dijon-sinnep
150 g port salut, eða annar ostur, skorinn í sneiðar
4 vorlaukar, snyrtir og skornir langsum
Lækkið hitann á ofninum í 170°C. Hrærið saman rjóma, egg, eggjarauður, salt og pipar. Smyrjið sinnepinu yfir botninn á skelinni, raðið sneidda ostinum yfir botninn síðan vorlauknum og hellið rjómablöndunni yfir.
Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir