Þetta bragðmikla salat sló í gegn í tilraunaeldhúsi Gestgjafans. Það getur vel verið aðalréttur en það er líka gott að bera það fram sem meðlæti með fisk- eða kjötréttum. Ekki bara bragðgott og hollt heldur líka litríkt og fallegt.
Bakað sætkartöflu- og grænkálssalat
2 sætar kartöflur
2 msk. harissa-kryddmauk
4 msk. ólífuolía
50 g grænkál
1 tsk. Maldon-salt
100 g fetaostur
4 msk. graskersfræ
8 radísur
Hitið ofninn í 200°C. Skrælið sætu kartöflurnar og skerið þær í litla teninga. Blandið harissa-mauki og þremur msk. af ólífuolíu saman í skál. Veltið sætu kartöflunum upp úr olíublöndunni og dreifið þeim á bökunarplötu með bökunarpappír. Bakið í 15-20 mín. Setjið til hliðar.
Skolið og þerrið grænkálið. Skerið stóra stilkinn frá og rífið það niður í lítil blöð. Veltið því upp úr einni msk. af ólífuolíu, salti og dreifið á bökunarplötu með bökunarpappír. Bakið í 15 mín.
Blandið sætkartöflubitunum og grænkálinu saman í skál. Myljið fetaostinn saman við og látið graskersfræin saman við. Skerið radísurnar í þunnar sneiðar og bætið við.
Salatsósa
safi úr ½ límónu
1 tsk. dijon-sinnep
1 msk. hunang
1 dl ólífuolía
salt og svartur pipar
Setjið allt hráefnið í skál og hrærið. Blandið sósunni saman við salatið eða berið hana fram til hliðar.
Umsjón / Sólveig Jónsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Gestgjafinn er vandað fagtímarit um mat, vín og ferðalög. Allar uppskriftir í matarþáttum blaðsins eru þróaðar, eldaðar og prófaðar í tilraunaeldhúsi Gestgjafans. Blaðið fæst í öllum helstu matvöruverslunum og bókabúðum en einnig er hægt að gerast áskrifandi í vefverslun.