Sunnudagur 17. nóvember, 2024
-4 C
Reykjavik

Bolludagur – uppruni og merking

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bolludag ber alltaf upp á mánudaginn í sjöundu viku fyrir páska en flest bendir til þess að siðurinn hafi borist hingað til lands með dönskum eða norskum bökurum á síðari hluta 19. aldar. Þó kemur þessi dagur oft upp í fornbréfum þó að ekki sé talað um hann sem hátíðisdag.

Í þjóðveldislögum er tekið fram að ekki má neyta kjötmetis tveimur dögum fyrir lönguföstu til þess að undirbúa meltingarfærin. Þótti skynsamlegt að taka kjötið út og ýtti þetta undir framleiðslu á ýmiss konar góðgæti, kökum og brauði. Má ætla að þaðan komi siðurinn að borða bollur þennan dag.

Orðið „bolla“ er tökuorð úr dönsku frá 18. öld en merking orðsins bolle var kringlótt kaka. Elsta heimild fyrir notkun orðsins er frá árinu 1799 og er þá átt við ýmsar bollugerðir eins og kjötbollur, fiskbollur og brauðbollur. Árið 1858 er „kjötbolla“ notað í íslenskri matreiðslubók en í sömu bók er „bolludagsbollan“ nefnd langaföstusnúður.

Myndband – Skotheld uppskrift að hinum fullkomnu vatnsdeigsbollum

Dagurinn var gjarnan kallaður mánudagurinn í föstuinngangi eða flengidagur og kom heitið „bolludagur“ ekki fram fyrr en á öðrum áratug 20. aldarinnar. Rótin kemur frá smáauglýsingu sem birtist árið 1913 þar sem auglýstir eru „bolludagsvendir“. Upp frá þessu virðist heitið bolludagur vera allsráðandi.

Árið 1913 birtist grein í Morgunblaðinu um bollur og vendi og áhugavert er að rætt er um „gamla venju“ en þar segir. „Gömul venja er það, að börn fái þá pappírsvendi, í öllum regnbogans litum, og gangi í hús nágrannanna og flengi þá í rúminu. Sá þótti mestur maðurinn eða efnilegasta stelpan sem flesta flengdi. En að launum eiga börnin að fá eina eða tvær bollur eftir efnum og ástæðum. Daginn eftir: niðurgangur og kvalir. En börnin gleyma því fljótt – og heimta pappírsvendi næsta bolludaginn.“

- Auglýsing -

Texti / Anna Brynja Baldursdóttir

Vatnsdeigsbollur

9-12 meðalstórar bollur eða 30 litlar

- Auglýsing -

2 dl vatn

50 g smjör

100 g hveiti

3 meðalstór eða 4 lítil egg

Hitið ofninn í 200°C. Hitið vatn og smjör saman í potti og látið suðuna koma upp. Setjið hveiti út í og hrærið saman, látið kólna í 3-5 mín. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í, eitt í einu, sláið vel saman á milli. Setjið í sprautupoka og sprautið 12 bollum á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Það má líka setja deigið með tveim teskeiðum á plötuna. Bakið í um 20 mín., ekki opna ofninn fyrstu 15 mínúturnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -