Föstudagur 22. nóvember, 2024
-1.6 C
Reykjavik

Cleveland – græna stálborgin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á dögunum ferðaðist ég til borgarinnar Cleveland og átti ekki von á að þessi gamla iðnaðarborg í miðríkjum Bandaríkjanna myndi heilla mig upp úr skónum.

Cleveland er borg í Norður-Ohio-ríki og liggur við strönd stöðuvatnsins Erie sem þó er svo víðfemt að horfi maður út á það væri auðvelt að ímynda sér það sem opið haf. Hinum megin við vatnið er Kanada og á vorin fyllast græn svæði borgarinnar af farfuglum sem nýta sér þau sem áningarstað áður en þeir fljúga langa og strembna ferð yfir Erie á sumarvarpstöðvar sínar í norðri. Borgin er byggð með fram hlykkjóttri á sem nefnist Cuyahoga en talið er að nafnið sé komið frá móhíkönum og þýði snúið fljót. Cuyahoga-áin var forsenda þess að borgin þróaðist úr litlu sveitaþorpi þar sem hún tengdist með manngerðum skurðum og fljótum við Atlantshafið og Mexíkóflóa, með því móti var þetta litla svæði í Bandaríkjunum orðið að ákjósanlegum stað fyrir viðskipti og vöruflutninga sem stækkaði enn frekar með tilkomu járnbrautarlestarinnar.

Borgin státar af skemmtilegum hverfum, fjölbreyttri þjónustu og söfnum, íþróttaliðum í úrvalsflokki, útisvæðum, leikhúsum og nánast endalausum viðburðum allt árið um kring.

Cleveland verður borg iðnaðar
Árið 1870 stofnaði John D. Rockefeller iðnaðarveldi sitt undir nafninu Standard Oil í Cleveland og lagði þar með grunninn að ótrúlegri auðlegð Rockefeller-fjölskyldunnar. Hann flutti seinna höfuðstöðvar sínar til New York-borgar sem þá var orðin þungamiðja viðskipta í landinu. Í byrjun 20. aldar flykktust þó fleiri fyrirtæki að borginni og Cleveland varð þekkt fyrir stáliðnað sem og bílaframleiðslu. Sumir bílaframleiðendurnir voru mjög framúrstefnulegir og voru á þessum tíma að reyna að þróa bíla sem gengu fyrir gufu eða rafmagni. Þessi mikli uppgangur laðaði að sér fólk sem settist að í borginni og vann iðnaðarstörf og gætir menningaráhrifa þess enn í dag. Þetta voru aðallega innflytjendur frá Suður- og Austur-Evrópu ásamt fólki af öðrum uppruna frá Suðurríkjum Bandaríkjanna í leit að atvinnu og betra lífi.

Cleveland er borg í Norður-Ohio-ríki og liggur við strönd stöðuvatnsins Erie sem þó er svo víðfemt að horfi maður út á það væri auðvelt að ímynda sér það sem opið haf.

Blómlegt listalíf
Borgin þandist út á þessum tíma og var í byrjun 20. aldar fimmta stærsta borg Bandaríkjanna. Hluti af nýjum íbúum Cleveland voru listamenn og tónlistarfólk. Stór hópur innfluttra var frá New Orleans og færði með sér líflega djasssenu, djassklúbbarnir þóttu á tímabili svo góðir að frægir tónlistarmenn, eins og Miles Davis og Duke Ellington, lögðu reglulega leið sína þangað. Uppgangurinn í iðnaðinum og ofgnótt verkamanna gerði það einnig að verkum að byggðar voru tilkomumiklar byggingar í miðborginni og ríkari stétt samfélagsins gerðist bakhjarlar listamanna. Þetta tímabil lista er þekkt sem Cleveland-skólinn og er sérstaklega þekkt fyrir fallegar vatnslitamyndir ásamt prentverkum og skúlptúrum. Sum þessara verka má finna á listasafni borgarinnar sem fjallað er um hér til hliðar.

Mengunarslys veldur byltingu í umhverfisvernd
Allur þessi uppgangur, þensla í iðnaði og sístækkandi hópur innflytjenda hafði þó einnig neikvæð áhrif. Mengun frá iðnaði borgarinnar, skordýraeitur og áburður flæddi óáreitt út í Cuyahoga-ána og stöðuvatnið Erie ásamt skólpi og rusli íbúanna. Þetta hafði þau áhrif að reglulega var strandlengja vatnsins full af dauðum fiskum sem lifðu ekki af mengunina í vatninu. Áin var oft þakin olíubrák og það gerðist oftar en einu sinni að eldur geisaði í ánni. Straumhvörf urðu árið 1969 þegar áin stóð í ljósum logum og olli töluverðum spjöllum. Í kjölfarið var sett fræg löggjöf (the clean water initiative) sem á við um öll ríki Bandaríkjana og setur takmarkanir á úrgangslosun í vötn og ár. Í krafti löggjafarinnar var ráðist í hreinsunarstarf í ánni og stöðuvatninu sem tekist hefur einstaklega vel. Fallegir og grænir almenningsgarðar liggja nú með fram ánni og laða að sér unga sem aldna í ýmis konar útivist, fuglaskoðun og fiskveiðar. Ferskvatnsuppspretta borgarbúa er nú í stöðuvatninu og á því má sjá fiskibáta, kajakræðara og fjölbreytt dýralíf.

Frjálslynd borg í uppsveiflu
Breytingar á iðnaðarháttum og verksmiðjuframleiðslu hefur breytt Cleveland á undanförnum áratugum. Borgin býr nú við mun blandaðra hagkerfi en var áður og öllu hefur verið kappkostað til að styrkja innviði borgarinnar bæði fyrir íbúa hennar og þá sem hana heimsækja, en margir brottfluttir Cleveland-búar eru farnir að sækja aftur í heimahagana. Í dag eru flestir sem sækja borgina heim aðrir Bandaríkjamenn eða Kanadabúar en borgin er í mikilli sókn og úr ótalmörgu að velja fyrir veraldarvana ferðalanga. Borgin státar af skemmtilegum hverfum, fjölbreyttri þjónustu og söfnum, íþróttaliðum í úrvalsflokki, útisvæðum, leikhúsum og nánast endalausum viðburðum allt árið um kring. Gestir borgarinnar geta hlaðið niður Destination Cleveland-smáforritinu í símann sinn til að skipuleggja ferðalag sitt og fylgjast með því sem er á döfinni.

________________________________________________________________

- Auglýsing -

Fjölbreytt afþreying í Cleveland

Rock and Roll Hall of Fame
Eitt aðalaðdráttarafl ferðamanna til Cleveland er rokksafnið Rock and Roll Hall of Fame. Safnið er við strönd vatnsins Erie og var teiknað af sama arkitekt og hannaði pýramídana við Louvre-safnið í París. Safnið er mjög stórt með bæði föstum sýningum og breytilegum sem spanna sögu rokktónlistarinnar í gegnum margmiðlunarsýningar, búninga og hljóðfæri tónlistarmanna og texta. Auðvelt er að verja heilum degi á safninu en þar má einnig finna veitingastað og bar til að fylla á tankinn milli þess sem skoðað er. Vefsíða: https://www.rockhall.com

Cleveland Museum of Art
Listasafn Cleveland er staðsett í hinu sjarmerandi University Circle-hverfi en þar má einnig finna dýragarð, grasagarð, tónleikahús og nútímalistasafn. Ókeypis aðgangur er að safninu og þar kennir ýmissa grasa. Það á gott safn verka impressjónistanna ásamt skemmtilegum nútímaverkum eftir bandaríska listamenn en þó er safnið þekkt fyrir stórt safn egypskra og suðaustur-asíska verka. Safnið er í gullfallegri byggingu með yfirbyggðu torgi í miðju safnsins og á fyrstu hæðinni má finna afþreyingarherbergi með gagnvirku efni fyrir yngstu kynslóðina. Vefsíða: http://www.clevelandart.org/

- Auglýsing -

The Cleveland Orchestra
Forfallnir aðdáendur klassískrar tónlistar vilja margir meina að sinfóníuhljómsveit Cleveland sé sú besta í Bandaríkjunum. Hljómsveitin ferðast mikið bæði um Bandaríkin og önnur lönd en á þó heimili sitt í Severance Hall, fallegri byggingu frá árinu 1931 sem ber eftirnafn velunnara síns, John Severance, en hann lét reisa tónlistarhúsið í minningu heittelskaðrar eiginkonu sinnar. Finna má dagskrá og fréttir hljómsveitarinnar á heimasíðu hennar. Vefsíða: https://www.clevelandorchestra.com

Cleveland Cavaliers og Cleveland Indians
Óhætt er að segja að Cleveland-búar séu forfallnir áhugamenn um körfubolta enda er lið þeirra, Cavaliers, með þeim bestu í NBA-deildinni og keppir nú um meistaratitill deildarinnar. Frægasti leikmaður liðsins, LeBron James, er frá svæðinu og nýtur mikillar hylli. Þegar heimaleikir eru fyllist miðborgin af stuðningsmönnum liðsins og barir eru þéttsetnir af þeim sem ekki náðu miða á leikinn sjálfan. Borgin er einnig þekkt fyrir hafnaboltalið sitt, Indians, sem einnig nær ávallt langt í sinni leikjatíð og laðar að sér stóran hóp áhangenda. Gaman er að vera hluti af stemningunni sem myndast í miðbænum þegar leikir eru en einnig er hægt að kynna sér leikjatíðina og kaupa sér miða til að upplifa hughrifin og spennuna í beinni. Vefsíða Cavaliers.
Vefsíða Indians: https://www.mlb.com/indians

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -