Föstudagur 17. janúar, 2025
-2.8 C
Reykjavik

Diddú var örugglega Ítali í fyrra lífi: „Ég er alin upp í mikilli matarást“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngdíva Íslands, Diddú er í forsíðuviðtali í nýjasta blaði Víns og matar, sem Mannlíf gefur út. Hér má sjá brot úr viðtalinu.

Við gengum inn í eldhúsið, þar sem hún var búin að baka focaccia-brauð sem var snætt með burrata-osti og ansjósum, aspaspasta með reyktum silungi og fallegu salati með fíkjum. Inni í þessu litla, krúttlega eldhúsi var allt eins og hún – sérstakt, fullt af bókum, barnaleikföngum og týpulegum skrautmunum. Allir hlutir eiga sinn stað, en kannski ekki alltaf sama staðinn – svolítið eins og Diddú. Hún var eins og ég hafði ímyndað mér hana, nema svo miklu mannlegri, hún sýndi manninum sínum svo mikinn kærleika og henni þykir hann greinilega enn jafn fyndinn og þegar þau kynntust á jólaballi fyrir næstum 50 árum, þar sem hún settist í fangið hans og eins og hún sagði „og ég sit þar enn“, með stóra brosið sitt sem við þekkjum öll.

ÖRUGGLEGA ÍTALI Í FYRRA LÍFI

Næst berst tal okkar að mat og ekki örlaði á hiki þegar ég spurði hana hvaðan mataráhrifin kæmu; „Nú frá Ítalíu, ég held að ég hafi verið þar í fyrra lífi. Ítalía talar svo sterkt til mín og djúpt inn í sálina. Ég bjó þar í rúmt ár með Kela og stelpunum þegar ég var í námi og mér fannst ég komin heim og menningin höfðaði sterkt til mín; maturinn, fólkið og tónlistin. Til samanburðar þá bjó ég í sex ár í Bretlandi, en fann aldrei þá tengingu sem ég fann fyrir á Ítalíu. Kannski tengist það líka því að pabbi minn var alltaf syngjandi ítalskar aríur þegar ég var að alast upp og til stóð að hann færi til Ítalíu í söngnám. Það var búið að finna styrktaraðila fyrir hann, en hann lærði söng hjá Sigurði „gamla“ Demetz sem vildi senda hann til Ítalíu. Nema þá guggnaði pabbi á að fara því mamma var orðin ófrísk að engri annarri en mér. Svo ég var eiginlega ástæða þess að pabbi fór ekki út,“ segir Diddú með sínum dillandi hlátri og bætir við að pabbi hennar hafi verið með mjög ítalskt skapferli; ástríðufullur og ör. „Föðuramma mín var dönsk og allt hennar slekt var mikið matarfólk, svo ég er alin upp í mikilli matarást og mér þykir matur og tónlist bráðna svo vel saman, því það tengir fólk saman í gleði. Ég fæ svo mikla útrás fyrir sköpun í eldhúsinu og ég elska að elda og halda stór matarboð, það er auðvitað mjög ítalskt, þar sem allir koma saman, tala mikið og hátt og gleðin sem myndast í góðu boði er engri lík.“

Hægt er að lesa allt viðtalið við Diddú í nýjasta tölublaði Víns og matar hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -