Miðvikudagur 15. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Ein ástælasta sælgætisgerð landsins opnar ísbúð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Súkkulaði- og ísunnendur eiga von á góðu því súkkulaðigerðin Omnom ætlar að færa út kvíarnar og opna ísbúð.

Kjartan Gíslason, súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda Omnom.

„Við munum bjóða upp á nokkra ísrétti sem verða búnir til og afgreiddir á staðnum, svona eins konar millistig á milli desserta og bragðarefs og svo ætlum við að gefa pínulitla smábarnaísa frítt með. Konceptið er frekar frjálst og opið og verður mögulega ekki alveg fullmótað þegar við opnum. Við ætlum bara að fara rólega af stað, vera með einhverja fjóra til fimm rétti á boðstólum til að byrja með, rétti sem við erum sjálf fullkomlega sátt við og svo leyfum við þessu svolítið að þróast, sem gerir þetta auðvitað bara skemmtilegt,“ segir Kjartan Gíslason, súkkulaðigerðarmaður og annar stofnenda Omnom.

„Við ákváðum að fagna afmæli lýðveldisins með pompi og prakt með opnun popup ísbúðar 17. júní. Henni var ótrúlega vel tekið, svo nú ætlum við að taka þetta skrefinu lengra.“

Eigendur súkkulaðigerðarinnar hafa í hyggju að opna ísbúð í húsakynnum Omnom að Hólmaslóð 4. „Hún kemur til með að hjá okkur hérna í verksmiðjunni, þar sem búðin var áður. Við lokuðum henni endanlega í byrjun maí þegar ástandið var hvað verst í samfélaginu og vorum að velta fyrir okkur hvað við ættum eiginlega að gera við rýmið. Þá kom upp sú hugmynd að opna ísbúð. Við fengum bráðabirgðaleyfi hjá borginni til að gera það í sumar og ákváðum að fagna afmæli lýðveldisins með pompi og prakt með opnun popup ísbúðar 17. júní. Henni var ótrúlega vel tekið, svo nú ætlum við að taka þetta skrefinu lengra.“

Hönnuðu búðina sjálf

Kjartan segir að upphaflega hafi staðið til að opna nýju ísbúðina núna í ágúst og tengja opnunina annað hvort við Hinsegin daga eða Menningarnótt en um leið og öll hátíðarhöld voru blásin af vegna samkomutakmarkana hafi verið ákveðið að fresta opnunni fram á haust. „Já, við erum núna að horfa til haustins, jafn vel september, í raun bara um leið og ástandið í þjóðfélaginu fer aftur að lagast.“

„Við ætlum bara að fara rólega af stað, vera með einhverja fjóra til fimm rétti á boðstólum til að byrja með, rétti sem við erum sjálf fullkomlega sátt við.“

Spurður hver eigi heiðurinn að hönnun ísbúðarinnar svarar hann því til að hún sé að alfarið í höndum starfsfólksins. „Við erum búin að endurhanna rýmið að einhverju leyti og notuðum svo þær innréttingar og mublur sem fyrir voru og færðum til, þannig að ísbúðin og súkkulaðigerðin verða í aðskildum rýmum. Við gerum þetta allt sjálf þannig að stemningin er mjög afslöppuð og heimilisleg,“ segir hann léttur í bragði.

- Auglýsing -

„Síðan áttum við nokkrar ísvélar sem við keyptum notaðar fyrir tveimur árum og höfum verið að prófa. Þannig að við erum alveg búin að vera pæla í þessu í smá tíma, en ástandið núna ýtti við okkur. Því þótt salan gangi almennt vel hjá fyrirtækinu hrundi salan í sjálfri búðinni þegar túristarnir hurfu og við urðum að loka henni og gera eitthvað við rýmið. Gátum ekki látið það standa autt. Ísbúð með dessert ívafi varð niðurstaðan.“

Kjartan tekur fram að fleiri komi að gerð sjálfs íssins en Omnom og því sé um samstarfsverkefni að ræða. „Við gerum ekki ísinn sjálf. Hann er búinn til í samvinnu við góða samstarfsaðila. Hins vegar notum við okkar súkkulaði í sósur, kurl og annað. Að því sögðu gæti alveg farið svo að við munum nota súkkulaðið í sjálfan ísinn líka þegar fram líða stundir. Það hefur þegar verið gert með góðum árangri í Michele Gaeta, ítölsku gelato-ísbúðinni í Aðalstræti, svo hver veit. Það verður bara að koma í ljós. Og ef viðtökurnar verða góðar þegar við opnum getur vel verið að við förum að gera ísinn sjálf, græjurnar eru alla vega fyrir hendi.“

Útiloka ekki útflutning

- Auglýsing -

Nú hefur verið ágæt eftirspurn ef Omnom súkkulaði erlendis frá, kemur útflutningur til greina? „Eins og staðan er núna þá hugsum við þetta fyrst og fremst sem ísbúð eða -sjoppu, ekki sem framleiðsluvöru. Að minnsta kosti ekki á þessu stigi málsins. En við erum alls ekki að loka á þann möguleika. Það gæti bara orðið skemmtilegt.“

„Þótt salan gangi almennt vel hjá fyrirtækinu hrundi salan í sjálfri búðinni þegar túristarnir hurfu og við urðum að loka henni og gera eitthvað við rýmið … Ísbúð með dessert ívafi varð niðurstaðan.“

Eitt er þó víst segir hann. „Og það er að sú sköpunargleði og tilraunastarfssemi sem hefur einkennt súkkulaðiframleiðsluna hjá Omnom verður svo sannarlega höfð að leiðarljósi við gerð íssins, enda ís og súkkulaði frábær blanda sem býður upp á endalausa möguleika. Þetta verður bara spennandi og það verður gaman að geta boðið almenningi aftur hingað til okkar, heimsókn til Omnom er ávísun á skemmtilega upplifun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -