„Crumble“ er á ensku notað yfir rétti sem þaktir eru einhvers konar mylsnu og hér er einn virkilega gómsætur sem auðvelt er að rigga upp ef gesti ber óvænt að garði.

Eplamylsnubaka með karamellu og salthnetum
fyrir 8
Mylsna
3 dl haframjöl
1 dl púðursykur
½ dl hveiti
70 g kalt smjör, skorið í bita
1 dl karamellukurl (má sleppa)
2 dl salthnetur, gróft saxaðar
Setjið haframjöl, púðursykur og hveiti saman í skál. Myljið smjörið saman við. Bætið karamellukurli og salthnetum við í lokin.
Fylling
1 ½ dl rjómi
1 ½ dl púðursykur
80 g smjör
5 græn epli, afhýdd og skorin í sneiðar
1 tsk. salt
Stillið ofn á 180°C. Setjið rjóma, púðursykur og smjör saman á pönnu og látið sjóða saman í 5 mín. eða þar til blandan hefur þykknað og líkist karamellu. Bætið eplum saman við og blandið varlega. Látið þau mýkjast aðeins í karamellunni, í 4-6 mín. og hellið síðan blöndunni i eldfast mót. Stráið svolitlu salti yfir og loks mylsnunni. Bakið í 25-30 mín. Það getur verið gott að setja álpappír yfir formið undir lokin ef karamellukurlið er farið að dökkna of mikið.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti /Ólöf Jakobína Ernudóttir