Hugmyndin var alltaf sú að höfða til Íslendinga, segir eigandi nýs veitingastaðar sem opnar um næstu mánaðamót í Reykjavík. Hann segir ekki hægt að stóla á ferðamennsku í veitingageiranum en vissulega sé hún kærkomin búbót.
„Nei, svo sem ekki,“ segir Aðalsteinn Ragnar Benediktsson, kokkur og eigandi Hosiló, þegar hann er spurður hvort hann sé ekkert smeykur við að opna nýjan veitingastað í þessu árferði. „Enda getur maður ekki og á ekki að treysta á að ferðamenn haldi veitingastöðum uppi, þótt ferðamennska sé vissulega kærkomin búbót. Þú vilt fá viðskiptavini sem koma oftar en einu sinni. Þess vegna var hugmyndin alltaf sú að reyna að höfða til Íslendinga.“
Það eru Aðalsteinn og félagar hans Atli Ottesen og Númi Þorkell Thomasson sem standa að baki Hosiló. Í þessum mánuði hafa þeir verið að prufukeyra matseðil staðarins um helgar og síðan verður Hosiló opnaður með formlegum hætti í byrjun næsta mánaðar. Með hliðsjón af góðum viðbrögðum bindur Aðalsteinn vonir við að staðnum verði vel tekið. „Fólk er rosalega ánægt með matinn. Það var reyndar sett út á eitt fyrsta kvöldið, vegansúkkulaðikökuna, við flýttum okkur nú bara að bæta hana og síðan þá hafa allir verið mjög glaðir. Viðtökurnar hafa eiginlega farið langt fram úr björtustu vonum,“ segir hann léttur í bragði.
„Þú vilt fá viðskiptavini sem koma oftar en einu sinni. Þess vegna var hugmyndin alltaf sú að reyna að höfða til Íslendinga.“
En hvers konar matur er í boði? „Við leggjum í raun áherslu á minni matseðla, þriggja rétta matseðil en ekki smárétti. Það verða sex til tíu réttir á matseðli og matseðillinn breytilegur eftir árstíðum og framboði hráefnis. Með öðrum orðum vinnum við með þau hráefni sem eru í boði hverju sinni og gerum það sem okkur finnst gott og gaman að gera. Hráefnið verður þar af leiðandi alltaf ferskt. Við eigendurnir höfum síðan allir ákveðinn bakgrunn í mið- og suðurevrópskri matargerð og verðum hliðhollir henni að einhverju leyti. Við ætlum þó alls ekki að einskorða okkur við hana, það verður ýmislegt fleira gott í boði,“ segir hann og kímir.
Kynntust á sögufrægum stað
Aðalsteinn, Atli og Númi hafa allir verið viðloðandi veitingageirann í áraraðir en leiðir þeirra lágu fyrst saman fyrir átján árum á hinum sögufræga veitingastað, kaffihúsi og skemmtistað Cafe Oliver, sem var lengi til húsa við Laugaveg 20 a. Síðast unnu þeir saman á veitingastaðnum Snaps. Hvað varð til þess að þeir ákváðu loks að söðla um eftir öll þessi ár og opna eigin stað? „Ástæðan er einföld. Eftir að hafa unnið undir öðrum í átján ár fannst okkur bara orðið tímabært að opna eigin stað og hafa frjálsar hendur, okkur fannst bara tækifærið vera núna, svona áður en við verðum of gamlir,“ segir Aðalsteinn og skellir upp úr.
Núna eða aldrei
„Nú getum við gert það sem við höfum gaman af og þar sem staðurinn er ekki stór, tekur bara 23 gesti í einu miðað við núverandi sóttvarnareglur, en annars 30, þá getum við boðið upp á fersk hráefni og höfum svigrúm til að breyta matseðlinum reglulega, sem gerir þetta ferlega skemmtilegt. Við erum bara þrír að vinna á staðnum þannig að það er engin rosaleg yfirbygging í gangi hérna. Í algjörri hreinskilni fengum við þetta húsnæði með frekar stuttum fyrirvara,“ viðurkennir hann, „og ákváðum bara að skella okkur á þetta.“
Óttast ekki samanburð við Dill
Talandi um það, þá vekur staðsetningin, Hverfisgata 12, óneitanlega athygli. Dill var þar áður til húsa og naut mikilla vinsælda. Eru félagaranir ekki hræddir um að Hosiló verði borinn saman við þann stað? „Nei, alls ekki,“ segir Aðalsteinn rólegur, „enda er húsnæðið í raun það eina sem tengir þessa tvo staði. Dill er auðvitað mjög flottur staður, en við erum ekki að eltast við það sem gert er þar. Matseldin er gerólík. Við leggjum áherslu á að fólk hafi það á bak við eyrað, mæti hingað með opnum huga, njóti matarins og hafi gaman.“