Þessa böku er mjög auðvelt að útbúa fyrir utan hvað hún bragðast dásamlega. Furuhnetur í bland við bragðmikinn ost og sætan frá ávöxtunum gera þennan rétt ómótstæðilegan. Tilvalinn smáréttur þegar von er á gestum og ekki mikill tími fyrir flókna eldamennsku.
Geitaosturinn sem notaður var í réttinn heitir Chavroux en einnig má nota bragðminni osta eins og camembert eða brie. Gott er að bera fram sætt hvítvín með þessum rétti.
1 rúlla smjördeig
2 egg
1 eggjarauða
150 ml rjómi
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
5-6 ferskar fíkjur eða ferskjur, skornar í báta
100 g geitaostur t.d Chavroux
2 msk. furuhnetur, ristaðar
2 stangir tímían
kaldpressuð ólífuolía eftir smekk til að dreypa yfir í réttinn þegar hann kemur út úr ofninum.
Hitið ofninn í 200°C. Bökuformið sem notað var í þessari uppskrift er 35cm x 11cm bökuform en að sjálfsögðu má nota meðalstórt hringlaga form, ílanga bökuformið fæst í Þorsteini Bergmann í Hraunbæ. Byrjið á því að setja smjördeigið í formið og vel upp á brúnirnar, gott er að pikka botninn á deiginu með gaffli, frystið í 30 mín. Hrærið egg, eggjarauðu og rjóma saman í skál og kryddið með salti og pipar. Skerið fíkjurnar (ferskjurnar) í tvennt. Takið formið úr frystinum og hellið rjómaeggjablöndunni í botninn og dreifið osti, hnetum og timíani yfir. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn gullinbrúnn. Dreypið kaldpressaðri ólífuolíu yfir réttinn þegar hann kemur út.
Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir/ Aldís Pálsdóttir