Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Fjölbreytileiki í sveitinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjögur systkini reka fyrirtækið Efstadal í uppsveitum Árnessýslu. Þar er til staðar myndarlegt kúa- og nautgripabú, ísbúð, veitingastaður, hótel og hestaleiga. Býlið hefur verið í eigu sömu ættarinnar í meira en þrjár aldir. Gestgjafinn var þar á ferð í sumar og hitti fyrir systkinin og kynnti sér þá starfsemi sem þar fer fram.

Gott er að koma inn í hlýjuna í Efstadal og notalegt andrúmsloft í hlöðunni sem nú er móttaka og ísbúð. Á meðan við bíðum eftir Höllu Rós, elstu systurinni, lítum við í kringum okkur á staðnum. Fólk streymir inn og stendur í röðum eftir ís, svo eru það kýr og kálfar sem fanga athygli okkar en inni í ísbúðinni er stór gluggi þar sem gestir geta horft inn í fjósið.

Við njótum þess að horfa á og fylgjast með þessum kunnuglegu skepnum og ekki annað en hægt að dást að þessum stað sem þau systkini hafa skapað. Það er einstakt að geta séð með berum augum hvaðan rjóminn sem er í ísnum kemur, sem keyptur er á sama stað. Hjónin Björg Ingvarsdóttir og Snæbjörn Sigurðsson hafa búið á jörðinni Efstadal frá því árið 1991 en nú hafa börnin þeirra fjögur, Halla Rós, Sölvi, Guðrún Karitas og Linda Dögg og makar þeirra (Björgvin Jóhannesson, Kristín Ingunn Haraldsdóttir, Árni Benónýsson og Héðinn Hauksson) tekið við öllum rekstrinum.

Þau eru fjórða kynslóð sinnar fjölskyldu sem búið hefur á jörðinni. Þar hefur fyrst og fremst verið stundaður búskapur en ýmislegt hefur bæst við á undanförnum árum. Fjölskyldan rekur hestaleigu, veitingastaðinn Hlöðuloftið, ísbúðina Íshlöðuna og svo er það hótel- og ferðaþjónustan. Einnig framleiðir hún vörur sem eru til sölu á staðnum, þá einna helst nautakjöt, fetaost, skyr, mysu og ís.

Þau vildu nota eins mikið upprunarlegt og hægt var, eins og veggi úr hlöðunni og fjárhúsagrindur.

Næstyngsta systirin, Guðrún Karitas, gengur brosandi í átt að okkur en hún stendur vaktina í móttökunni þennan dag. Við förum upp á aðra hæð, en þar er veitingastaðurinn Hlöðuloftið sem er afar vinalegur og heimilislegur og fagurlega skreyttur með skemmtilegum hlutum úr sveitinni. Fróðleikur um fjölskylduna hangir á veggjunum á mjög svo fallegum, hringlaga skiltum. Vinaleg umgjörð þar sem gestkomandi fær á tilfinninguna að vera boðinn inn í stofu fjölskyldunnar.

Breyttu hlöðunni í veitingastað

Halla Rós kemur hlaupandi upp stigann, sest hjá okkur og segir okkur í stórum dráttum söguna. „Foreldrar okkar byrjuðu með hestaleiguna árið 1994 og árið 2002 var heimagistingunni bætt við, svo var ráðist í byggingu á húsi með tíu herbergjum sem hefur verið í rekstri frá 2005. Þegar heyskapurinn breyttist og hlaðan varð tóm fengu foreldrar okkar þá hugmynd að breyta henni í veitingastað. Sölvi bróðir okkar hafði verið mikið með mömmu í eldhúsinu og er afbragðskokkur svo þau byrjuðu að byggja þetta upp saman,“ segir Halla Rós.

Þegar heyskapurinn breyttist og hlaðan varð tóm fengu foreldrar okkar þá hugmynd að breyta henni í veitingastað.

- Auglýsing -
Sólbjörg Lind, dóttir Höllu, og Brynjar Logi, sonur Sölva, standa vaktina í ísbúðinni.

Hún segir að þau hafi rekið sig á ýmislegt til að byrja með og fáir hafi lagt leið sína til þeirra í fyrstu. „Það þurfti að bæta við hlöðuna og vinna ýmis verk en árið 2012 var svo hafist handa við að breyta hluta hlöðunnar í ísbúð og veitingastað ásamt því að byggja viðbyggingu fyrir ísvinnslu, eldhús, móttöku, bar og starfsmannaaðstöðu og svo hefur þetta bara verið upp á við. Foreldrar okkar stigu til hliðar fyrir um ári síðan og við tókum við öllu saman.

Það var smávegis sjokk að taka alla ábyrgðina. Bróðir minn og mágur sjá að mestu um búskapinn og við stelpurnar berum ábyrgðina hér inni. Við erum með frábæra fagmenn á veitingastaðnum og fullt af góðu fólki í vinnu hjá okkur. Þetta er flókið fyrirtæki að reka en með góðu skipulagi gengur það. Hér áður fyrr var aðalstressið í kringum heyskapinn en núna er það meira stress þegar allt í einu kemur stór hópur af ferðamönnum í mat og allt þarf að ganga upp,“ segir Halla Rós.

Viljum fá fólkið til okkar

- Auglýsing -

Halla er mjög mikil áhugamanneskja um flokkun og segist vera kölluð Rympa á ruslahaugunum af systkinum sínum. „Það þarf að vera gríðarlega agaður til að flokka vel en flokkun er framtíðin. Ég reyni að forðast plast sem er oft mjög erfitt en það fer allt í endurvinnslu. Mér finnst líka mikilvægt að minnka matarsóun með því að nýta matinn betur. Við skiptum við fyrirtæki hér í nágrenninu og viljum allt það ferskasta. Við kaupum jarðarber frá bóndanum á Silfurtúni, blómin fáum við frá Espiflöt, sveppina frá Flúðasveppum, kartöflur, gulrætur og rófur frá Grafarbakka og Auðsholti og allt salat, gúrkur, tómata og paprikur frá Böðmannsstöðum.

Við tölum við bændur og fáum það sem þeir eiga mikið af og breytum stundum matseðlinum út frá því. Sumt er árstíðabundið og finnst mér að við Íslendingar ættum að gera meira af því að borða það sem er ferskast hverju sinni eins og gert er í nágrannalöndunum. Við viljum líka að fólk kynnist sveitinni og sjái hvað við erum að gera hér, þannig tengist viðskiptavinurinn vörunni miklu betur og verður meðvitaðri um hvað hann setur ofan í sig,“ segir Halla Rós að lokum.

Ég reyni að forðast plast sem er oft mjög erfitt en það fer allt í endurvinnslu.

Vel var gert við okkur í Efstadal og við smökkuðum ýmsa gómsæta rétti og frábæran ís. Við mælum að sjálfsögðu með ferð í Efstadal sem á svo sannarlega vel við fyrir alla fjölskylduna og þökkum þeim systkinum kærlega fyrir gestrisnina.

Myndir / Unnur Magna

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -