Súpur eru fyrirtaksmatur og tilvalið að bera þær fram með góðu brauði. Þessi fiskisúpa heppnaðist mjög vel í tilraunaeldhúsi Gestgjafans en hún er bragðmikil og svolítið sterk. Hægt er að gera hana daginn áður og hita upp rétt áður en á að bera hana fram, en þó er betra að setja fiskinn út í samdægurs.
Fiskisúpa
fyrir 6
1 meðalstór sæt kartafla, um 400 g, skorin í bita
2 msk. olía
1 rauðlaukur, saxaður
1 rauð paprika, fræhreinsuð og skorin litla bita
1 gul paprika, fræhreinsuð og skorin í litla bita
1 ferskt jalapeno, fræhreinsað, eða 2 msk. úr krukku, saxað
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
cayenne-pipar á hnífsoddi
500 ml fisksoð
2 msk. fiskisósa
1 msk. tamari-sósa
1 dós kókosmjólk
2 msk. safi úr límónu
2 tsk. indversk kryddblanda frá Kryddhúsinu
1 tsk. garam masala-krydd
1 tsk. sjávarsalt
pipar eftir smekk
600 g þorskur, í bitum eða annar hvítur fiskur
2 msk. kóríander, stráð yfir í lokin
Sjóðið sætkartöflubitana og maukið í matvinnsluvél eða blandara. Setjið til hliðar. Steikið laukinn í 5 mín. upp úr olíunni og bætið við paprikum, jalapeno og hvítlauk og látið malla í nokkrar mínútur. Setjið allt nema fiskinn saman við. Látið súpuna sjóða í 10 mín. og bætið þá fiskinum út í og 2 msk. af kóríander, slökkvið á hitanum. Fiskurinn er fljótur að eldast í gegn í heitri súpunni sérstaklega þegar búið er að skera hann í bita. Smakkið og bragðbætið með salti og pipar. Gott að bera límónubáta og saxaðan kóríander fram með súpunni.