Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.7 C
Reykjavik

Fróðleikur um agúrkur og uppskrift að tzatziki-sósu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Agúrkur eru aðallega notaðar ofan á brauð hér á landi eða út í hrásalöt. En einnig er hægt er að mauka þær og blanda saman við jógúrt og kryddjurtir, gera úr þeim súpur, sósur og ídýfur. Vinsæl sósa sem færst hefur í aukana að nota hér á landi er gríska tzatziki-sósan sem þykir létt og góð.

 

Uppruni
Agúrkur eru taldar ættaðar frá Indlandi en í Evrópu hafa þær verið ræktaðar í margar aldir en það sýna ritaðar heimildir, til dæmis er þeirra getið í grískum og rómverskum heimildum. Agúrkur eru í rauninni ávöxtur eða stórt ber. Þær eru af sömu ætt og melónur, kúrbítur og grasker. Oftast er talað um tvennskonar agúrkur, þær löngu hafa þykkara skinn en þær minni og eru þessar venjulegu sem við þekkjum. Þær styttri þekkjum við sem asíur eða piklaðar gúrkur sem eru annaðhvort niðursneiddar eða hafðar heilar í söltum edikslegi eða saltpækli. Agúrkur voru fyrst ræktaðar á Reykjum í Mosfellssveit hér á landi árið 1913 en upp úr 1925 var ræktun þeirra orðið nokkuð algeng.

Næringargildi
Agúrkur eru taldar koma auknu jafnvægi á blóðþrýsting og efnin plöntusteról og pektín hafa sýnt samkvæmt rannsóknum að þau geti hugsanlega dregið úr magni kólesteróls í blóði. Þær innihalda fáar hitaeiningar en mikið af vatni. Að borða agúrku með hýðinu gefur bestu næringuna. Steinefnið sílíkon í agúrkum er gott fyrir hár og neglur. Gúrkur eru mjög vítamínríkar. Þær innihalda flest B-vítamínin, C-vítamín, og K-vítamín, fólinsýru, kalk, járn, magnesíum, fosfór ásamt góðu magni af kopar.

Gúrkutíð
Þegar talað er um ,,gúrkutíð“ er lítið um að vera í þjóðfélaginu og fjölmiðlar hafa úr litlu efni að moða. Orðið er talið eiga rætur að rekja til kaupmanna í Berlín árum áður. En á sama tíma og agúrkurnar þroskuðust og voru lagðar í súr síðsumars, stóðu frí sem hæst og minnst að gera í viðskiptalífinu. Fóru menn að tengja uppskerutíma agúrkunnar við lægðir í samfélaginu og er þetta máltæki enn notað í dag.

Agúrkusalöt eftir landssvæðum
Norðurevrópsk agúrkusalöt eru með ediki og dilli, við Miðjarðarhafið með ólífuolíu og ferskri myntu eða óreganó. Norðurafrísk salöt eru oft með hvítlauk og dilli og indversk með karríkryddum. Mexíkósk með avókadó, chili og kóríander. Víða í heiminum eru þær líka snöggsteiktar og notaðar í heita rétti.

Ýmsir molar
• Sniðugt er að setja agúrkusneiðar á húðina því það gefur henni raka og róar hana ef það er sviði í henni.
• Einnig er talið gott að skella kældum gúrkusneiðum á augun til að draga úr bólgum og auka frískleika.
• Hún er talin góð til að forðast þynnku ef nokkrar sneiðar eru borðaðar áður en farið er að sofa.
• Hún er góður skyndibiti ef hungurtilfinningin lætur á sér kræla.
• Agúrkur eru fjórða mest ræktaða grænmetið í heimi og eru þekktar sem ein hollasta fæða sem fyrirfinnst.
• Ef skoðaðar eru tölur um magn þá borðar hver Íslendingur um 4-5 kíló af agúrkum árlega.

- Auglýsing -
Það er gott að skella kældum gúrkusneiðum á augun til að draga úr bólgum.

Tzatziki-sósa

1 agúrka
1 ½ tsk. sjávarsalt
1 sítróna, helst lífræn
1 hvítlauksrif
hnefafylli steinstelja
hálf hnefafylli fersk mynta
400 g grísk jógúrt
2 msk. ólífuolía
½ tsk. pipar

Saxið agúrkuna, með hýðinu, smátt eða rífið í gegnum stóru götin á rifjárni. Látið í skál, blandið ½ tsk. af salti saman við og látið standa í 10-15 mínútur. Rífið 1 msk. af sítrónuberki fínt, setjið í skál og kreistið safa úr hálfri sítrónu yfir. Saxið hvítlaukinn smátt og bætið saman við sítrónusafann og börkinn.

Saxið steinselju og myntu smátt og setjið í skálina. Bætið grískri jógúrt, olíu, restinni af saltinu og piparnum saman við. Kreistið þá safann úr söltuðu agúrkunni og blandið henni saman við. Geymið í kæli þar til borið fram.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -