Föstudagur 27. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Fyrsta æta afurðin í íslenskri náttúru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rabarbari er sennilega fyrsta æta afurðin í íslenskri náttúru sem kemur upp á vorin, en hann lætur kræla á sér mun fyrr á Norðurlöndum og í Englandi, eða í byrjun febrúar. Þvert á það sem margir halda er hann grænmeti en ekki ávöxtur. Rabarbari er upprunninn í Asíu, nánar tiltekið í Mongólíu, Himalaja-fjöllum og Síberíu, enda þolir hann vel frost.

 

Æti hlutinn af rabarbara er stilkurinn og rótin (perurnar). Rabarbarablöðin innihalda eitruð efni og því má alls ekki borða þau. Stundum hefur verið sagt að rabarbarinn sé óhollur vegna oxalsýrunnar sem í honum er og þá sérstaklega að hann sé slæmur fyrir nýrun. Fyrir heilbrigða einstaklinga er í góðu lagi að neyta rabarbarans, það er einungis slæmt fyrir þá sem hafa ákveðna tegund af nýrnasteinum. Rabarbari er afar trefjaríkur og skýrir það hvers vegna hann hefur verið notaður sem meltingarlyf í gegnum aldirnar. Hann er hitaeiningalítill, sérlega C-vítamínríkur og inniheldur talsvert magn steinefna eins og kalín, fosfór, magnesíum og kalsíum.

Góður sem drykkur

Rabarbara er hægt að geyma í ísskáp í 2-3 daga en hann verður nokkuð fljótt linur. Hann má auðveldlega frysta og þá er best að þvo hann og þerra og skera svo í litla bita. Litur hans er ýmist grænn og rauður eða hárauður en síðastnefndi liturinn er oftast á svokölluðum vínrabarbara sem er fíngerðari og mildari. Ef grænn rabarbari er notaður gæti verið gott að nota nokkra dropa af rauðrófusafa í réttina til að þeir verði rauðari. Gott er að mýkja rabarbara áður en hann er notaður í bakstur, annaðhvort með því að láta hann marinerast í skál með sykri í 20-30 mín. eða sjóða í stutta stund með smávegis sykri og örlitlu vatni.

Hollur fyrir okkur

Rabarbari trénar þegar hann er orðinn of stór og þess vegna er best að neyta hans þegar hann er fremur lítill. Ef hann er allur tekinn upp í byrjun sumars vex hann aftur. Á góðu sumri er hægt að ná jafnvel þremur uppskerum. Stóran rabarbara getur verið gott að skræla áður en hann er notaður.

Rabarbari hefur mest verið notaður í sultur, grauta, súpur, búðinga, kökur og í seinni tíð hefur hann verið notaður í kryddmauk t.d. með fiski og kjöti. Hægt er að búa til úr honum rabarbaravín og svo má nota hann út á hafragraut og með jógúrt eða bara dýfa stönglunum í sykur eins og margir muna eflaust eftir að hafa gert í æsku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -