Föstudagur 24. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Gerðu þína eigin sælkeraskál

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Notalegur matur eða „comfort food“ er eitthvað sem við þörfnumst reglulega en hvað er notalegra en að kúra undir teppi með fulla skál af mat sem nærir líkama og sál. Afgangar eru sérstaklega hentugir í sælkeraskálar og ótrúlegt hvað eitt egg, svolítill kjúklingabiti, nokkrar baunir eða salatblað geta gert mikið og hráefni á borð við sriracha-sósu, majónes, pestó, góða ólífuolíu, parmesan-ost, hnetur og fræ geta gert gæfumuninn. Hér er uppskrift af sælkeraskál sem auðvelt er að breyta eftir þörfum. Hér gildir að láta hugmyndaflugið ráða.


Kúrbíts- og kjúklingaskál með baunum og ofnbökuðum tómötum. Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Kúrbíts- og kjúklingaskál með baunum og ofnbökuðum tómötum

fyrir 1-2

Kúrbítsstrimlar
1 stór kúrbítur
1 tsk. gróft sjávarsalt
olía til steikingar
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 dós blandaðar baunir, skolaðar vel
2 msk. grænt pestó
kjúklingakjöt, eldað (sjá uppskrift)
3 dl soðinn búlgur
ofnbakaðir kirsuberjatómatar (sjá uppskrift)
hnefafylli radísuspírur
1 soðið egg
1 msk. grænt pestó
hnefafylli fersk steinselja, söxuð
1-2 msk. rifinn parmesan-ostur
skvetta ólífuolía
salt og pipar
sítrónusafi eftir smekk

Rífið kúrbítinn í strimla með grænmetisskrælara og dreifið á hreint viskastykki. Stráið salti yfir og látið þetta standa í a.m.k. 30 mín. Notið þá eldhúspappír til þess að þerra kúrbítsstrimlana vel og ná sem mestu vatni úr þeim. Hitið olíu á pönnu og steikið hvítlauk í stutta stund. Bætið baununum út á og steikið í nokkrar mín. Setjið þá kúrbítinn á pönnuna ásamt pestói og látið hitna í gegn. Athugið að steikja kúrbítinn ekki of lengi því þá verður hann að mauki, hann á bara rétt að hitna. Raðið kjúklingi, kúrbít, baunum, búlgur og tómötum í skál ásamt spírum og soðnu eggi. Dreifið pestói yfir hér og þar og stráið parmesan-osti, steinselju og salti og pipar yfir og dreypið vel af ólífuolíu yfir. Bragðbætið með sítrónusafa eftir smekk.

Kjúklingur
2-3 úrbeinuð kjúklingalæri
1-2 msk. rautt pestó
1 msk. olía
nýmalaður svartur pipar
gróft sjávarsalt

Blandið öllu saman og steikið kjúklinginn á heitri grillpönnu í 4-5 mín. á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Látið kólna lítillega og skerið í strimla.

Ofnbakaðir kirsuberjatómatar
170 g kirsuberjatómatar
1 msk. ólífuolía
1 hvítlauksgeiri, rifinn fínt
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar

- Auglýsing -

Hitið ofn í 190°C. Blandið öllu vel saman og setjið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið tómatana í u.þ.b. 12-15 mín.

Búlgur er gjarnan notað í matargerð frá Mið-Austurlöndum og Indlandi en einnig er það algengt í evrópskri matargerð enda svipar því til pasta, þurrkuð hveitiblanda sem er soðin í vatni. Hlutföllin eru yfirleitt 1 hluti búlgur á móti 1 hluta vatns.

Umsjón/Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir/Hákon Davíð Björnsson
Stílisti/Ólöf Jakobína Ernudóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -