Ferðalög og útivist eru okkur hugleikin í nýjasta tölublaði Gestgjafans enda fátt betra en að borða góðan mat í íslenskri náttúru.
Í blaðinu bjóðum við upp á sælkeramat fyrir útileguna auk þess sem ævintýra- og fjallgöngukonurnar G. Sigríður Ágústsdóttir og Vilborg Arna Gissurardóttir gefa lesendum nokkrar frábærar nestisuppskriftir og góð ráð varðandi fjallamennsku.

Ein góð leið til að njóta góða veðursins í sumar er að nota garðinn og borða úti. Blaðamenn Gestgjafgjafans skruppu til Miðjarðarhafsins og Mið-Austurlanda í huganum og töfruðum fram flotta garðveislu með æðislegum réttum en matargerð af þessu tagi hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár.
Ljúffengir og sumarlegir kjúklingaréttir sem henta vel á grillið eru í blaðinu, kúrbítsklattar með jógúrtsósu, gómsætt sódabrauð með heslihnetum og súkkulaði og kartöflusalat með laxi sem er tilvalin leið til að nýta afganga af elduðum laxi og gott til að grípa með í nestið.

Dominique segir lesendum helstu fréttir úr vínheiminum og mælir með spennandi vínum. Fjallað er um áhrif kórónuveirunar á vínheiminn, vinsæla drykkinn Aperol Spritz og þrjú vín pöruð saman við klassíska réttinn Quiche Lorraine. Einnig má finna fróðleik um vínsmökkun og í hverju felst að smakka vín blint.
Einnig er vert að minnast á þéttan ferðaþátt en Gestgjafinn heimsótti nokkra ferðaþjónustuaðila í Hveragerði og Borgarfirði sem bjóða upp á fjölmarga möguleika í afþreyingu, náttúruperlum, mat, drykk og gistingu.
Sjón er sögu ríkari.
Tryggðu þér áskrift að Gestgjafanum í vefverslun
