Föstudagur 24. janúar, 2025
2.7 C
Reykjavik

Girnirlegir og einfaldir eftirréttir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gómsætir eftirréttir gerðir með góðum fyrirvara.

Hér eru uppskriftir að glæsilegum eftirréttum sem má laga með góðum fyrirvara. Er það ekki einmitt það sem við þurfum, að hafa möguleika á að skipuleggja okkur svolítið með góðum fyrirvara og eingöngu þurfa að setja eftirréttinn saman rétt áður en hann er borinn fram.

Ís og eldur
fyrir 8-10

Hér má gera ísinn tilbúinn með nokkurra vikna fyrirvara. Þessi ís á myndinni er ekki með kökubotn en það er líka gott að hafa ljósan eða dökkan kökubotn undir. Væta má í kökubotninum með víni eða ávaxtasafa. Óneitanlega glæsilegur eftirréttur og flott að stinga stjörnuljósum í hann fyrir gamlárskvöld. Þið getið hæglega keypt góðan ís og stytt ykkur leið, ef þið notið tilbúinn ís þarf u.þ.b. 800 ml af jarðarberjaís og 1000-1200 ml af súkkulaðiís eða bara þeim ís sem er að ykkar smekk.

Þessi ís á myndinni er ekki með kökubotn en það er líka gott að hafa ljósan eða dökkan kökubotn undir.

Jarðarberjaís:

3 eggjarauður
4 msk. sykur
1 msk. vanillusykur
300-400 g jarðarber, maukuð í matvinnsluvél
4 dl rjómi, léttþeyttur

Þeytið rauður með sykrinum og vanillusykrinum þar til blandan er létt og loftkennd. Blandið jarðarberjum og þeyttum rjóma varlega saman við og hellið í skál. Frystið.

- Auglýsing -

Súkkulaðiís:

150 g súkkulaði
1 ½ dl mjólk
3 eggjarauður
4 dl rjómi, léttþeyttur

Bræðið súkkulaði og mjólk saman í vatnsbaði. Bætið eggjarauðum út í og þeytið blönduna yfir vatnsbaðinu í 6-8 mín. eða þar til blandan þykknar aðeins. Kælið og blandið þeyttum rjómanum saman við. Hellið ofan á jarðarberjaísinn og frystið.

- Auglýsing -

Marenstoppur:

3 eggjahvítur
90 g sykur
90 g flórsykur

Hitið ofninn á 250°C. Þeytið eggjahvítur þar til þær eru að verða stífar. Blandið sykri saman í skál og bætið út í hvíturnar einni matskeið í einu. Hrærið áfram í 6-8 mín. eða þar til marensinn er stífur. Takið ísinn úr frysti og losið úr skálinni, hvolfið á ofnplötu eða kökubotn. Smyrjið marensinum ofan á allan ísinn. Setjið í ofninn í nokkrar mínútur eða þar til hann er farinn að taka lit. Einnig má fá húð á marensinn með því að nota gasbrennara.

________________________________________________________________

Súkkulaði-marquise með appelsínuþrennu
fyrir 8-10

Súkkulaði-marquise er gott að eiga í ísskáp eða frysti og taka fram eftir þörfum. Hægt er að fá 10-12 sneiðar úr þessari uppskrift en þetta er ríkulegur og saðsamur eftirréttur og ekki þarf mikið magn á hvern disk. Gott er að hafa könnu með heitu vatni og væta hnífinn og þerra til að skera niður fallegar sneiðarnar.

Gott er að hafa könnu með heitu vatni og væta hnífinn og þerra til að skera niður fallegar sneiðarnar.

400 g súkkulaði
200 g smjör
1 dl sykur
1 msk. koníak (má sleppa)
6 egg, aðskilin

Smyrjið jólakökuform, 25 cm langt, með olíu og leggið plastfilmu í það, eina eftir endilöngu og aðra þvert, það þarf að þekja botninn og allar hliðar. Bræðið súkkulaðið með smjörinu í vatnsbaði við vægan hita. Bætið sykrinum og koníakinu út í og hrærið í þar til sykurinn er uppleystur. Takið súkkulaðiblönduna af hitanum og bætið eggjarauðum í, einni í einu, og hrærið vel saman. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru stífar. Bætið þeim í súkkulaðiblönduna, fyrst helmingnum og síðan öllu og blandið vel saman. Hellið súkkulaðiblöndunni í formið, það verður alveg fullt og kælið eða setjið í frysti. Berið fram með appelsínuþrennu og kumats í sírópi.

Appelsínuþrenna:

3 matarlímsblöð
1 appelsína
2 blóðappelsínur
3 mandarínur
2 dl hvítvín, eða eplasafi
1 ½ dl sykur

Leggið matarlímsblöðin í ískalt vatn í 5-10 mín. Flysjið appelsínu og blóðappelsínur með hníf og losið laufin varlega frá án þess að himnan fari með. Flysjið mandarínur og fjarlægið mest af himnunni, setjið allt aldinkjötið í skál. Hitið hvítvín eða eplasafa ásamt sykri og leysið sykurinn upp. Bræðið matarlímið í sykursírópinu. Skiptið aldinkjötinu í form, gott að nota múffumót, magnið fer svolítið eftir stærðinni á appelsínum en þið ættuð að ná í a.m.k. 6 skammta. Hellið sykurblöndunni ofan á aldinkjötið. Kælið þar til stíft. Þetta má gera með allt að tveggja daga fyrirvara.

Kumat-síróp:

6-8 kumat, skorið í sneiðar
1 dl vatn
¾ dl sykur

Sjóðið allt saman og kælið aðeins. Geymist í 1-2 daga.

Samsetning:
Setjið 1-2 sneiðar af súkkulaði-marquise á mann og setjið á fallega diska. Losið appelsínuþrennu úr forminu og setjið á diskinn. Raðið nokkrum sneiðum af kumat á diskinn og hellið sírópinu af því í kring. Berið fram með ískaldri grískri jógúrt eða sýrðum rjóma, bragðbættum með smávegis af flórsykri og vanillu eða þeyttum rjóma.

________________________________________________________________

Panna cotta með rauðum toppi
fyrir 4

Hér er jólalegur eftirréttur fyrir fullorðna fólkið, það er að segja þá sem finnst Campari gott. Skipta má Campari út fyrir Ribena. Ég hef ekki of mikið af matarlími í rjómablöndunni, mér finnst betra að hafa búðinginn ekki of stífan þegar hann er í glasi.

Hér er jólalegur eftirréttur fyrir fullorðna fólkið, það er að segja þá sem finnst Campari gott. Skipta má Campari út fyrir Ribena.

3 matarlímsblöð
4 dl rjómi
2 dl mjólk
4-5 msk. sykur
1 vanillustöng
½ tsk. vanilludropar

Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn í 5-10 mín. Setið rjóma og mjólk í pott, setjið sykur, korn af vanillustöng ásamt stönginni út í og hitið þar til sykurinn er uppleystur. Látið blönduna standa í 8-10 mín. svo að rjómablandan taki í sig allt góða bragðið af vanillunni. Leysið matarlímið upp í blöndunni, bætið vanilludropum í, hellið henni í gegnum sigti og skiptið í falleg glös. Kælið þar til blandan fer að stífna.

Rauður toppur:

2 matarlímsblöð
1 dl vatn
1 dl sykur
safi úr 1 sítrónu
2-4 msk. Campari (má sleppa og nota Ribena)

Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn. Hitið vatn og sykur ásamt sítrónusafa í litlum potti þar til sykurinn er uppleystur. Bætið Campari út í og bragðbætið. Leysið matarlímið upp í blöndunni og hellið ofan á panna cotta þegar það er orðið stíft. Gjarnan má gera eftirréttinn tilbúinn daginn áður.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Kristinn Magnússon
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -