Veitingamaðurinn og meistarakokkurinn Gísli Matthías Auðunsson ætlar að fetar nýjar slóðir og opna sælkeraverslun. Í samtali við Gestgjafann segir hann að COVID-19 hafi orðið til þess að hann og fjölskyldan ákváðu að kýla á þetta fyrir jólin.
„Maður er spenntur og pínu stressaður líka, ég viðurkenni það nú alveg fúslega. En ég held að viðtökurnar verði góðar. Við förum alla vega inn í þetta með opnum huga og bara vonum það besta,“ segir Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslu- og veitingamaður, sem vinnur nú að því opna nýja sælkeraverslun í Vestmannaeyjum.
Fyrir rekur Gísli veitingastaðinn Slippinn, sem hann opnaði ásamt fjölskyldu sinni í Eyjum árið 2012. Slippurinn hefur notið mikill vinsælda allt frá opnun og undanfarið hefur fjölskyldan unnið dag og nótt að því að breyta húsnæði að Strandvegi 79, sem er beint á móti staðnum, í sælkerabúð Slippsins.
„Við rákum í húsinu annan veitingastað, ÉTA, sem við opnuðum fyrr á þessu ári en tókum ákvörðun um að breyta honum í sælkeraverslun,“ útskýrir hann. „Þetta var ekki eitthvað sem hafði lengi staðið til,“ tekur hann fram. „Við vorum aðeins búin að ræða það innan fjölskyldunnar að okkur langaði til að opna verslun sem byði upp á fisk og ferskt sjávarfang og aðra sælkeravöru, en það var í raun ekki fyrr en í þessu ástandi, covidinu og allri óvissunni, sem við ákváðum að kýla á það núna fyrir jólin.“
„Það er mikil spenna fyrir þessu í bænum. Við höfum meira að segja verið að fá fyrirspurnir frá höfuðborgarsvæðinu um hvort við ætlum að senda vörur til Reykjavikur.“
Spurður út í vöruúrvalið segir Gísli að ferskur fiskur, ostar og kjötafurðir komi til með að verða á boðstólum og svo „take-away“-réttir frá Slippnum. „Við fengum til liðs við okkur hana Eirnýju Sigurðardóttur sem hefur rekið sælkerabúðina Búrið við góðan orðstír síðustu ár. Hún er auðvitað fagmanneskja á sínu sviði og mun sjá til þess að það verði gott úrval af ostum. Svo verður boðið upp á gæðahráskinkur, grafið kjöt og ferskt kjöt og ferskan fisk. En með hliðsjón af því að við í Eyjum erum umkringd ferskum fiski er ótrúlegt að hugsa til þess að hann skuli hvergi fást hérna. Okkur finnst tilvalið að bæta úr því. Í bland við þetta verða svo tilbúnir réttir frá Slippnum, humarsúpan okkar góða, grafið lamb, súkkulaðimús og fleira gotterí sem fólk getur tekið með sér.“
„Viss kúnst að vinna með mömmu“
Hvernig hafa heimamenn brugðist við fregnum af nýju búðinni? „Ótrúlega vel. Það er mikil spenna fyrir þessu í bænum. Við höfum meira að segja verið að fá fyrirspurnir frá höfuðborgarsvæðinu um hvort við ætlum að senda vörur til Reykjavikur, en ég get nú ekki alveg lofað því,“ segir Gísli og hlær.
Hann kveðst vera þakklátur fyrir viðbrögðin og segir að þau slái svolítið á stressið sem fylgir því að opna verslun. „Já, þessar góðu undirtektir hjálpa til og vissan um að maður sé bæði með góða vöru í höndunum og gott fólk með sér í þessu. Ég hef náttúrlega aldrei opnað verslun áður. Þetta er alveg nýtt fyrir mér.“
En hvernig er eiginlega að standa í svona fjölskyldurekstri? „Það hefur auðvitað sína kosti og galla. Það er til dæmis viss kúnst að vinna með mömmu sinni,“ svarar hann og skellir upp úr. „Nei, nei, ég er nú bara að grínast. Við fjölskyldan vinnum mjög vel saman, setjum okkur markmið og reynum að vinna að þeim sameiginlega. Kostirnir eru því ótvírætt fleiri. Og svo það sé á hreinu þá er mamma alveg yndisleg!“
Hvenær ætlið þið að opna búðina? „Við gáfum út að verslunin yrði opnuð snemma í desember, en það verður örugglega í kringum 8. til 9. desember. Síðan stefnum við á að hafa hana opna fram að áramótum.“