Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-8.2 C
Reykjavik

Góð ráð – ekki klúðra fisknum á grillinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Flestar fisktegundir má grilla en hentugasti fiskurinn er þéttur í sér eins lax, lúða og skötuselur. Einnig virkar vel að nota heilan fisk. Sumir nota alltaf álpappír til að grilla fisk; hreinasta svindl myndu einhverjir kalla það og senda síðan viðkomandi inn til að sjóða fiskinn eða steikja á pönnu því það jafngildir slíkri álpappírseldamennsku. Viðkvæmari fisktegundir á borð við kola og þorsk er þó ágætt að grilla í álpappír.

Hitinn á grillinu er eitt það mikilvægasta þegar kemur að því að grilla fiskinn og hann er grillaður við mjög háan, beinan hita í stuttan tíma. Þessi snöggi og hái hiti hjálpar til við að loka fiskinum strax, hann verður safaríkari og festist síður við grillið.

Kveikið á grillinu, stillið á hæsta hita og kyndið það í u.þ.b. 20 mínútur. Athugið að allt meðlæti og smáatriði ættu að vera tilbúin áður en fiskurinn fer á grillið, hann bíður ekki. Grillgrindin á að vera eins hrein og mögulegt er.

Kryddið fiskinn eftir smekk. Ef grilla á heilan fisk er best að skera u.þ.b. ½ cm djúpar rákir ofan í roðið og krydda ofan í þær. Gætið þess að þerra fiskinn vel og sérstaklega ef um er að ræða rækjur sem hafa tilhneigingu til að draga í sig vatn. Ef fiskurinn er of blautur soðnar hann frekar en að grillast.

Mynd/Karl Petersson

Hafið öll grilláhöld til reiðu við grillið. Það sem þarf er steikargaffall eða töng og góður spaði og hreinn diskur til að leggja fiskinn á þegar hann er tilbúinn.

Penslið grillgrindina með olíu, það kemur í veg fyrir að fiskurinn festist við hana og hjálpar til við að skapa fallegar grillrákir. Þar sem penslar eiga það til að eyðileggjast í miklum hita er ágætt ráð að brjóta saman nokkrar eldhúspappírsarkir í lítinn ferning. Haldið um pappírsferninginn með töng og dýfið honum í olíu. Berið síðan olíuna á grillgrindina með pappírnum. Endurtakið þetta nokkrum sinnum þar til grindin er orðin vel olíuborin og glansandi.

Leggið fiskinn með roðhliðina niður á mitt grillið þar sem hitinn er mestur, girnilegt hviss-hljóð ætti að heyrast. Forðist kaldari staði á grillinu og óbeinan hita. Best er að leggja fiskinn á ská á grindina, það býr til fallegustu grillrákirnar auk þess sem auðveldara verður að lyfta fiskinum af grindinni seinna.

- Auglýsing -
Mynd/Karl Petersson

Lækkið hitann aðeins, leggið lok yfir grillið og leyfið fiskinum að grillast í u.þ.b. 2 mínútur. Rennið þá steikargaffli milli teinanna á grillgrindinni og undir fiskinn, lyftið honum örlítið til að athuga hvort grillrákirnar eru byrjaðar að myndast. Athugið að heill fiskur þarf svolítið lengri tíma en flök.

Þegar góðar grillrákir eru komnar á fiskinn notið þá steikargaffalinn til að lyfta honum aðeins og rennið spaða undir hann. Einnig má nota tvo þunna spaða, renna þeim undir fiskinn frá báðum endum og hvolfa honum svo. Grillið fiskinn áfram á hinni hliðinni undir loki.

Takið fiskinn af grillinu um leið og hann er tilbúinn.

- Auglýsing -

Texti / Guðrún Vaka Helgadóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -