Einfaldir réttir sem öllum finnst góðir.
Á mínu æskuheimili var gjarnan aspassúpa í forrétt á aðfangadagskvöld og var þá borið nýbakað brauð með. Ég hafði það hlutverk þennan dag að útvega brauðið, snittubrauð, sem var búið að panta í hverfisbakaríinu og fannst mér það mikilvægt verkefni. Sumir eru að stíga sín fyrstu skref í að skapa jólahefðirnar og uppbökuð súpa er réttur sem einfalt er að laga og öllum finnst góður. Súpa er líka góður kostur sem forréttur þegar veislan er stór.
ASPASSÚPA
fyrir 6
30 g smjör
3 msk. hveiti
12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð
2 aspasdósir ( u.þ.b. 600 g samtals)
salt eftir smekk
pipar eftir smekk
2 dl rjómi, þeyttur
2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)
Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með soðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki, bætið soðinu af aspasnum út í í restina. Sjóðið súpuna í 3-5 mín., bætið þá aspas út í og látið allt sjóða saman við vægan hita í 4-5 mín. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á með steinselju.
Ef ferskur aspas er notaður í súpuna í staðinn fyrir aspas úr dós þá er neðsti hlutinn af stönglinum flysjaður létt, aspasinn skorinn í bita og soðinn í soðinu í nokkrar mínútur á sama hátt og gert er í blómkálssúpunni.
BLÓMKÁLSSÚPA
fyrir 4
Nota má sömu aðferð við að gera spergilkálssúpu.
1 stórt blómkálshöfuð, skorið í 4 hluta
12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð
30 g smjör
3 msk. hveiti
salt eftir smekk
pipar eftir smekk
2 dl rjómi, þeyttur
2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)
Sjóðið blómkálið í soðinu þar til það er næstum meyrt. Sigtið soðið frá og geymið. Skiptið blómkálsbitunum í greinar í munnbitastærð. Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með kjötsoðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki. Sjóðið súpuna í 3-5 mín. og bætið síðan blómkáli út í og látið sjóða aðeins áfram. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á rjómann með steinselju eða tímíangrein.
BRAUÐBOLLUR
24 stk.
500 g hveiti
1 tsk. salt
1 tsk. sykur
100 g smjör
½ pk. þurrger
3 dl mjólk
1 egg
Blandið hveiti, salti og sykri saman í skál og myljið smjörið í blönduna. Hitið mjólkina þar til hún er fingurvolg og stráið þurrgerinu úr í, látið standa í 2-3 mín. Sláið eggið út í mjólkurblönduna og hellið þessu síðan út í hveitið. Hnoðið saman í sprungulaust deig. Látið deigið í skál og látið lyfta sér á hlýjum stað, undir klút eða plastfilmu, í 30 mín. Hnoðið deigið á ný og skiptið í tvo hluta. Rúllið hvorn hluta í pylsu og skiptið í 12-14 bita. Hnoðið bollur og raðið á ofnplötur. Látið lyfta sér aftur í 30 mín. og penslið með eggi eða mjólk. Hitið ofninn í 225°C. Bakið bollurnar í 10-15 mín. Má frysta og hita upp aftur við 100°C. Í 10-15 mín.
Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir