Grilluð svínarif með kryddblöndu og BBQ-sósu eru ómissandi hluti af grillmenningu margra ríkja í Bandaríkjunum, sérstaklega í Suðurríkjunum. Nálgunin á matinn er ólík eftir svæðum en alls staðar er þetta fingramatur sem er eilítið subbulegur en að sama skapi mjög skemmtilegt að borða.
Hér eru svínarifin nudduð með kryddblöndu, vandlega vafin inn í álpappír og elduð í ofni í nokkrar klukkustundir svo að rifin verði meyr og kjötið renni af beinunum. Rifin eru síðan kláruð á grillinu til að fá hinn óviðjafnanlega grillkeim.
Grilluð svínarif
Hægt er að forelda rifin deginum áður. Vefjið þeim þá vandlega inn í álpappír og geymið í kæli. Takið út og grillið þar til þau eru orðin heit í gegn og komin með fallega skorpu frá hitanum á grillinu.
1 msk. salt
1 msk. sinnepsduft
1 msk. paprikukrydd
½ tsk. chili-duft
½ tsk. malaður svartur pipar
1 hryggur grísarif, án krydds og marineringar
150 BBQ-sósa

Hitið ofn í 170°C og takið saman hráefnið. Mynd/Aldís Pálsdóttir Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Blandið saman salti, sinneps-, papriku- og chili-dufti ásamt svörtum pipar í lítilli skál. Mynd/Aldís Pálsdóttir Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Nuddið kryddblöndunni í rifin. Pakkið þeim síðan vandlega inn í álpappír, leggið í ofnskúffu og bakið í ofni í 2 ½-3 klst. eða þar til kjötið er orðið alveg meyrt. Mynd/Aldís Pálsdóttir Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Takið rifin úr ofninum, fjarlægið álpappírinn og hellið kjötsafanum í skál. Blandið honum síðan saman við BBQ-sósuna. Látið rifin kólna. Mynd/Aldís Pálsdóttir Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Hitið grillið að háum hita. Grillið rifin, snúið þeim reglulega og penslið með BBQ-sósunni, u.þ.b. 8-10 mín. Mynd/Aldís Pálsdóttir Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir

Takið af grillinu og skerið rifin í sundur. Berið fram með meiri BBQ-sósu. Mynd/Aldís Pálsdóttir Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir
BBQ-sósa
Það er mjög einfalt að búa til eigin BBQ-sósu og líklegt að flestir eigi nauðsynlegt hráefni til í skápunum hjá sér. Auðvelt er að leika sér með uppskriftina og bæta t.d. við chili-dufti eða chili-sósu fyrir þá sem vilja smávegis hita.
2 dl eplaedik
4 msk. sinnep
2 dl tómatsósa
1 tsk. salt
1 tsk. pipar
200 g púðursykur
5 hvítlauksrif, rifin með rifjárni
3-4 dropar liquid smoke, má sleppa
Setjið allt hráefnið í pott og hrærið saman. Náið upp hægri suðu og lækkið síðan hitann og látið malla í u.þ.b. 10 mín. eða þar til blandan þykknar og verður seigfljótandi.
