Hrásalöt eru tilvalið meðlæti, ekki síst með grillmat, og hægt er að útbúa þau með góðum fyrirvara, jafnvel daginn áður. Gott er að geyma hrásalöt í kæli í nokkrar klst. áður en þau eru borin fram, sítrónusafi og edik mýkja kálið og þannig verður salatið betra eftir að hafa fengið að taka sig í kælinum í nokkra stund.
Sellerírótarsalat
1 eggjarauða
1 msk. dijon-sinnep
1 ½ dl bragðlítil olía
safi úr ½ sítrónu
gróft sjávarsalt
nýmalaður svartur pipar
1 sellerírót, afhýdd og skorin í mjög
þunna strimla, gott að nota þráðskera
hnefafylli fersk steinselja, smátt söxuð
Setjið eggjarauðu og sinnep saman í skál og pískið vel saman. Bætið olíunni saman við í dropatali og pískið kröftuglega.
Þegar sósan fer að þykkna má bæta olíunni út í í lítilli bunu, en gætið þess að hræra allan tíma af krafti. Gott er að setja rakt viskastykki undir skálina og gera einskonar kant sem heldur henni á sínum stað þegar pískað er.
Bragðbætið með sítrónusafa, salti og pipar. Blandið sósunni saman við sellerírótarstrimlana og setjið í kæli í nokkara klst. Dreifið ferskri steinselju yfir þegar salatið er borið fram.
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir