Kjúklingabringur njóta alltaf mikilla vinsælda en þó þykja mér kjúklingaleggir og læri mættu fá meiri athygli en þau gera. Kjötið á þeim er dekkra og bragðmeira og minni líkur á að kjötið eldist of mikið þannig að það verður þurrt og óspennandi. Leggir og læri eru sérstaklega vel til þess fallin að elda í ofni.
Þessi réttur nýtur alltaf mikilla vinsælda og er ljúffeng blanda af krydduðum kjúklingi, kaldri jógúrtsósu og kúskúsi með sætum þurrkuðum ávöxtum. Það má auðvitað skipta út perlukúskúsinu fyrir fíngerðara kúskús sem auðveldara er að nálgast en ég er sérstaklega hrifin af þessum stærri tyggilegri perlum.
Kjúklingur
1.5-2 kg kjúkingalæri og leggir, með beini
4 msk. harissa
½ tsk. kummin
3 msk. ólífuolía
1½-2 tsk. salt
½ tsk. pipar
Þerrið kjúklingabitana með eldhúspappír og setjið til hliðar. Hrærið saman harissa, kummin, ólífuolíu, salti og pipar. Veltið kjúklingnum upp úr kryddleginum og setjið til hliðar í 30 mínútur. Einnig má setja kjúklingabitana í rennilásapoka, þrýsta sem mestu lofti úr og geyma í kæli í sólarhring (þá þarf að taka kjúklinginn tímanlega út og láta standa við stofuhita í 30 mínútur áður en hann er eldaður). Hitið ofninn í 200°C. Dreifið kjúklingnum á ofnplötu og setjið inn í miðjan ofn. Bakið þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn, u.þ.b. 40-50 mín. Berið fram með kúskúsi og jógúrtsósu og ferskum kryddjurtum ef til eru.
Marokkóskt perlukúskús
safi úr ½ sítrónu
3 msk. ólífuolía
½ tsk. salt
¼ tsk. pipar
½ dl fersk steinselja, söxuð
2 msk. mynta, söxuð
80 g þurrkaðir ávextir, saxaðir (t.d. þurrkuð trönuber, þurrkaðar apríkósur, þurrkaðar rúsínur, þurrkaðar döðlur)
1 dl pístasíuhnetur, gróft skornar
200 g perlukúskús (stórt kúskús)
Hrærið saman sítrónusafa og ólífuolíu, bragðbætið með salti og pipar. Setjið til hliðar. Setjið steinselju, myntu, þurrkaða ávexti og pístasíuhnetur í stóra skál. Sjóðið kúskús í söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Hellið vatninu frá og setjið í skálina. Hellið ólífuolíublöndunni yfir og veltið öllu vel saman. Bragðbætið með salti og pipar ef þarf.
Jógúrtsósa
1/3 bolli hreint jógúrt
1 lítill hvítlauksgeiri
1 tsk. kummin
salt og pipar
Þrýstið hvítlauksgeiranum í gegnum pressu ofan í jógúrtið. Hrærið saman við ásamt kummin. Bragðbætið með salti og pipar.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Folda Guðlaugsdóttir