Marsípan er alveg ómissandi í veislur, það verður allt einhvern veginn hátíðlegra þegar marsípankakan er komin á borðið. Hér kemur uppskrift að einni ljúffengri marsípanböku þar sem jarðarber eru í aðalhlutverki.
Marsípanbaka með jarðarberjum
fyrir 10
Botn:
2 ½ dl hveiti
½ dl sykur
100 g kalt smjör, í bitum
safi úr ½ sítrónu
1-2 msk. kalt vatn (ef þarf)
3-4 msk. jarðarberjasulta
Blandið saman hveiti og sykri, myljið smjörið saman við með fingrunum eða notið hníf til að skera það inn í hveitið, blandan á að líkjast grófri brauðmylsnu.
Setjið sítrónusafa saman við og hrærið, deigið á rétt að hanga saman. Bætið köldu vatni við, ef þarf. Hnoðið deigið létt saman og setjið í smelluform sem er u.þ.b. 24 cm í þvermál.
Notið fingurna til að þrýsta deiginu í botninn og upp með hliðunum. Setjið hveiti á hendurnar ef deigið klístrast mikið við ykkur.
Dreifið jarðarberjasultu yfir botninn og setjið formið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.
Fylling:
170 g mjúkt smjör
1 dl sykur
börkur af 1 sítrónu
1 tsk. möndludropar
3 egg
300 g marsípan, rifið gróft
100 g möndluflögur eða hakkaðar möndlur
Hitið ofn í 175°C. Hrærið saman smjör og sykur, bætið sítrónuberki og möndludropum saman við og hrærið þar til blandan er létt og ljós.
Bætið eggjum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli. Setjið þá marsípan og möndlur saman við og hrærið þar til allt er vel blandað.
Dreifið fyllingunni í botninn og bakið í u.þ.b. 45 mín. Látið kökuna kólna í forminu áður en jarðarberjahlaupið er sett ofan á.
Jarðarberjahlaup:
3 matarlímsblöð
3 dl jarðarberjasulta
200 g fersk jarðarber til skrauts
flórsykur til að sigta yfir
Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn. Hitið sultuna varlega í potti og bætið matarlíminu saman við. Látið blönduna kólna þar til hún er aðeins farin að þykkna.
Hellið yfir kökuna og látið stífna alveg. Skreytið með ferskum jarðarberjum.
Umsjón og stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir