Hérna er á ferðinni uppáhaldssteikin mín: Nauta-prime-steik, ásamt nýuppteknum rauðum kartöflum, grillaðri papriku og béarnaise-sósu. Þetta er hin fullkomna blanda, bragðmikið og hæfilega mjúkt kjöt. Auðvitað er þetta ekki jafnmjúkt og lundin en bitinn er bragðmeiri. Hrein unun er að elda svona steik og í þessu tilviki vildi ég ekkert eiga mikið við kjötið því ég vildi að kjötbragðið og allt það flókna bragð sem kemur úr þessu stykki fengi að njóta sín. Ég notaði aðeins salt, pipar og dijon-sinnep.
1 stk. nauta-rib eye, um 3 kg
5 msk. dijon-sinnep
2 msk. ólífuolía
salt og svartur pipar
Hitið ofninn í 100°C. Smyrjið kjötið með dijon-sinnepinu og olíunni, kryddið svo eftir smekk. Brúnið kjötið að utan á hvorri hlið í 5 mín. á mjög háum hita, annaðhvort á grilli eða stórri pönnu. Setjið kjötið á stórt fat og inn í ofn með hitamæli í þykkasta partinum á steikinni og kjarnhitinn á að fara upp í 55°C fyrir medium rare-steikingu. Þetta tekur um það bil 4-5 tíma en það fer eftir hvernig kjötið er og hvernig ofn þið notist við. Takið kjötið og leggið viskustykki yfir það og hvílið í minnst 5 mín. áður þið skerið í það.
Béarnaise-sósa
200 g smjör
2 eggjarauður
sítrónusafi úr 1 sítrónu
1/3 dl hvítvín
2 tsk. béarnaise-essence
1 msk. estragon, þurrkað
½ kjötkraftsteningur leystur upp
Bræðið smjörið í potti á lágum hita. Hitið vatn í stórum potti. Þeytið eggjarauður, hvítvín og sítrónusafa saman í minni potti. Setjið pottinn með eggjunum ofan í vatnsbaðið og haldið áfram að þeyta þar til þykknar. Takið pottinn úr vatnsbaðinu og blandið smjörinu mjög varlega saman við. Bragðbætið að lokum sósuna með kjötkrafti, estragon og essence, salti og pipar. Gott er að bæta smávegis af cayenna-pipar til að fá svolítið sterkt bragð í hana.
Berið nýuppteknar kartöflur og grillaða papriku fram með þessu.
Umsjón / Hinrik Carl Ellertsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir
Myndir / Ernir Eyjólfsson