Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Hressandi hjólaferð um San Francisco

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

San Francisco er heillandi borg sem hefur upp á margt að bjóða.

Vegna vinda sem blása frá Kyrrahafinu er veðrið milt allt árið um kring með svölum, nær úrkomulausum sumrum og hlýjum vetrum. Þrátt fyrir hæðótt landslag borgarinnar er tilvalið að skoða hana á hjóli. Mannlíf fór nýlega í slíka ferð og sá stóran hluta borgarinnar á tólf tímum.

Í Alamo Square Park

Hjólaleigur eru víðsvegar um borgina og við völdum leigu við hliðina hótelinu okkar í miðborg San Francisco, skammt frá Union Square, mekka verslunar í borginni, sem heitir Blazing Saddles Bike Rentals and Tours. Þar var vel tekið á móti okkur, farið yfir helstu öryggisatriði og hjólabúnað. Hægt var að velja ferð með leiðsögn eða fara á eigin vegum. Við ætluðum á eigin vegum en vorum með nokkuð mótaðar skoðanir á hvað við vildum sjá. Í ljós kom að þau voru með merkt kort sem hentaði okkur algerlega, enda voru langanir okkar ekki mjög exótískar, bara allt þetta vinsælasta í borginni. Einnig fengum við skrifaðar upplýsingar um leiðina. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er ætlast til að hjólað sé á gangstéttum, hjóla þarf á götunni. Á mörgum stöðum eru hins vegar sérhjólaakreinar, grænmerktar.

Litríkar lafðir
Við byrjuðum á að hjóla áleiðis í Golden Gate Park og okkar fyrsti viðkomustaður var Alamo Square Park sem er fallegt grænt svæði sem liggur hátt uppi og þaðan er gott útsýni til dæmis yfir háhýsi miðborgarinnar. Við eina hlið garðsins eru hin frægu hús Painted Ladies, röð viktorískra húsa við Steiner Street í fallegum mismunandi litum. Það er dásamlegt að setjast niður í þessum garði, virða fyrir sér útsýnið og jafnvel fá sér smávegis nesti.

Andi hippamenningarinnar svífur yfir hverfinu Haight-Ashbury.

Hippalífið
Næst lá leiðin í gegnum hippahverfið Haight-Ashbury sem er nefnt eftir gatnamótum strætanna Haight og Ashbury. Andi hippamenningarinnar frá því á sjöunda áratugnum svífur yfir og þarna eru margar skemmtilegar smáverslanir, veitingastaðir, grúví kaffihús og skrautleg vegglistaverk. Nauðsynlegt er að taka sjálfsmynd við götuskiltið á gatnamótum Haight og Ashbury. Ég veit ekkert út af hverju, allir hinir krakkarnir eru bara að gera það.

Garður gullna hliðsins
Þá komum við í Golden Gate Park sem er risastór almenningsgarður og nær frá hippahverfinu út að strönd Kyrrahafsins. Vel er hægt að verja heilum degi þarna, svo margt er hægt að skoða. Við hjóluðum hægt í gegn og nutum þess sem varð á vegi okkar. Það má alveg mæla með Japanska tegarðinum, göngu á Strawberry Hill og að skoða Stow Lake svo eitthvað sé nefnt. Einnig höfum við heyrt góða hluti um söfnin deYoung og California Academy of Sciences þó að við höfum ekki gefið okkur tíma til að stoppa þar í þessari ferð.

Seal Rocks-eyjaklasinn séður frá Cliff House.

Svalur Kyrrahafsblær
Magnað er að koma út úr garðinum og fá Kyrrahafið í fangið, vindurinn og kælingin sem tók á móti okkur minnti stórlega á íslenska veðráttu. Það hefur sennilega oft verið meira líf á ströndinni en þennan dag enda gera íbúar borgarinnar sennilega aðeins meiri kröfur en við Íslendingar þegar kemur að hitatölum á ströndinni. Okkur fannst hins vegar gott að finna fyrir svölu sjávarloftinu og hjóluðum með fram sjónum í átt að Cliff House. Þar er vinsælt veitingahús og flottur útsýnispallur yfir Seal Rocks-eyjaklasann og Sutro Baths, rústir stórrar almenningssundlaugar með saltvatni, sem opnuð var 1896 en brann árið 1966.

- Auglýsing -
Strekkingsvindur er oftast þvert á Golden Gate-brúnna.

Brúin ógurlega
Þegar þangað var komið byrjaði gleðin upp í móti fyrir alvöru. Til að komast að Golden Gate-brúnni sem var okkar næsti áfangastaður þurftum við að hjóla upp og niður nokkrar hæðir og lærin fengu sannarlega að finna fyrir því. Frá China beach er glæsilegt útsýni yfir brúna frægu og farið að styttast í að við kæmum að þessari heimsfrægu smíð. Við brúna er heljarinnar þjónustumiðstöð og vel haldið utan um ferðamenn. Við stoppuðum þar í stutta stund áður en við héldum yfir brúna og tókum auðvitað nokkrar myndir. Þar sem klukkan var orðin 16 þurftum við að hjóla á vestari hluta brúarinnar og þá er austari hlutinn aðeins opinn göngufólki. Fyrri part dagsins er austari hlutinn opinn bæði gangandi og hjólandi vegfarendum. Strekkingsvindur var á brúnni og á stundum alls ekki auðvelt að hjóla en mikið var þetta skemmtileg upplifun. Við stoppuðum nokkrum sinnum til að taka myndir við lítinn fögnuð atvinnuhjólreiðafólks sem skammaði okkur fyrir að stoppa á „hræðilegum stöðum“. Við reyndum því að láta lítið fyrir okkur fara.

Alcatraz séð frá Piar 39.

Strandbær og veðurblíða
Hinum megin við flóann var eins og að koma inn í nýtt loftslag, við komumst fljótlega í var fyrir vindinum og nutum blíðunnar á norðurbakkanum. Ferðinni var heitið í bæinn Sausalito sem er afar fallegur og þaðan er gott útsýni yfir að San Francisco. Við fengum okkur að borða á frábærum litlum pizzastað við ströndina, stað sem heitir Venice Gourmet Delicatessen & Pizzeria. Hjólaleigan hafði í upphafi látið okkur hafa miða í ferju sem tók okkur aftur til San Francisco sem rukkað er fyrir í lok ferðar ef miðarnir eru notaðir. Við ákváðum að nýta okkur miðana og tókum ferjuna aftur á austurbakkann.

Sæljón flatmaga við Piar 39.

Ferjuferð og fallegar bryggjur
Á leiðinni fórum við fram hjá hinni frægu Alcatraz-eyju og komum í land við bryggjuna við Ferry Building Marketplace. Þarna var klukkan orðin 19 en við ákváðum samt að skoða höfnina. Við hjóluðum að hinni frægu Pier 39 þar sem mikið er um að vera og við sáum meðal annars sæljónin flatmaga. Við enduðum bryggjurúntinn í Fishermans Wharf og sáum í hendi okkar að þaðan er frekar stutt að kræklóttu götunni á Lombard Street. Á kortinu sást hins vegar ekki hversu miklar hæðir við þurftum að klífa til að komast þangað en við létum okkur samt hafa það og hjóluðum sigri hrósandi niður þessa frægu götu í ljósaskiptunum. Klukkan 22 vorum við komnar aftur að hótelinu og skiluðum hjólunum eftir tólf tíma vel heppnaða reisu og áttum skilið að enda þennan dag á Cheesecake Factory sem er við Union Square.

- Auglýsing -

WOW air flýgur til San Francisco allt árið um kring. Verð frá 14.499 kr. aðra leið með sköttum.

Texti og myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -