Í Matargati Víns og matar svarar Stefán Pálsson laufléttum spurningum um mat og drykki. Stefán er þjóðinni kunnur sem sagnfræðingur, spurningahöfundur Gettu betur og mikill bjórunnandi.
Starf:
Sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi.
Fjölskyldurhagir:
Giftur og tveggja drengja faðir.
Ertu á einhverju sérstöku mataræði?
Nei.
Uppáhaldsmatur?
Svikni hérinn sem pabbi hefur náð að fullkomna.
Uppáháldsdrykkur?
Sterkur belgískur bjór. Annars er vatn yfirleitt best með mat.
Uppáhaldsmatarmenning?
Toppurinn er að komast í góðan Miðausturlandamat, líbanskan/sýrlenskan/tyrkneskan.
Pítsa eða pasta?
Pítsa. Og helst hálfmána ef ég er á veitingastað.
Eftirlætisveitingastaður?
La Primavera er alltaf sígildur.
Hvað færðu þér ofan á pítsu?
Ef ég fæ sjálfur að ráða verða sjávarréttir oftast fyrir valinu, en fjölskyldan hefur minni húmor fyrir slíku.
Ómissandi í eldhúsið?
Mikilvægt að eiga alltaf til, að minnsta kosti, lúku af pistasíum.
Sakbitin sæla?
Pítusósa í ýmsum óhefðbundnum samsetningum.
Hvað færðu þér þegar þú nennir ekki að elda?
Kebab er alltaf einföld redding.
Best á grillið?
Hross er alltaf besta kjötið, annars grillum við sárasjaldan nema á ferðalögum.
Undarlegasti réttur sem þú hefur smakkað?
Sushi með hvalrengi í Nuuk.
Versti réttur?
Nánast allt sem í boði var á nígerískum veitingastað í Luton var í senn torkennilegt og óætt, en gleði starfsfólksins og 9% afrískur Guinness björguðu því sem bjargað varð.
Vandræðalegasta augnablikið í eldhúsinu?
Margendurtekin augnablik eftir niðurbrytjun á chili, þar sem maður hefur í ógáti farið með
puttana þar sem síst skyldi.
Hvað er í matinn?
Bleikjuflök og einhver samtíningur úr ísskápnum.