Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Íslensk ofurfæða sem kostar ekki krónu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslenskir matþörungar er ný hagnýt og fræðandi bók sem opnar lesendum heim matþörunga við strendur Íslands. Að sögn höfunda er þetta í fyrsta sinn sem alhliða fróðleikur um þá ofurfæðu sem matþörungar eru birtist í íslenskri bók.

Bókinni er ætlað að gera fólki um allt land kleyft að geta farið niður í fjöru, átt yndislega stund með fjölskyldu og vinum í fjörumó og farið svo heim og eldað úr því sem tínt var. Mynd / Karl Petersson

„Ég veit eiginlega ekki hvernig stendur á því að enginn hefur gert svona bók á Íslandi áður, kannski er enginn nógu klikkaður til þess,“ segir einn fjögurra höfunda bókarinnar, Eydís Mary Jónsdóttir, og skellihlær, þegar hún spurð hvort það geti virkilega að staðist að þetta sé fyrsta íslenska heildstæða ritið um matþörunga.

„Það hafa alveg birst uppskriftir hér og þar, en svona bók hefur ekki komið út áður hérlendis. Ég veit ekki hver ástæðan er, kannski þótti þetta einfaldlega ekki nógu fínt. Í gamla daga, áður en við fórum að flytja inn mat, þá voru matþörungar auðvitað helsta C vítamín uppspretta þjóðarinnar og borðaðir til þess að koma í veg fyrir skyrbjúg. Söl voru meira að segja flutt á milli landshluta, þau voru okkur bara algjörlega lífsnauðsynleg og fólk var mjög meðvitað um þá staðreynd. Þegar íslendingar byrja í auknu magni að flytja inn mat erlendis frá er eins og almenningur fari að upplifa matþörunga sem fátækra manna mat sem það jafnvel skammaðist sín fyrir að nýta og þannig var það lengi. Á undanförnum árum hefur sem betur fer orðið breyting þar á og sífellt fleiri farnir að átta sig á því að matþörungar eru ekki bara góð, sjálfbær næringaruppspretta heldur einnig gríðarlega skemmtilegt og gott hráefni í matargerð. Við þurfum bara að afla okkur þekkingar til að vita hvernig best er að nýta þá,“ segir hún og bendir á að þar komi bókin einmitt að góðum notum.

„Það er engin planta sem vex upp á landi sem inniheldur jafn mikið og fjölbreytt magn næringarefna, vítamína og lífvirkra efna eins og þörungar.“

Bókinni er ætlað að gera fólki um allt land kleyft að geta farið niður í fjöru, átt yndislega stund með fjölskyldu og vinum í fjörumó og farið svo heim og eldað úr því sem tínt var. „Við erum gríðarlega heppin að búa á Íslandi því hringinn í kringum landið er að finna gríðarlegt magn matþörunga og það er komin tími til þess að við Íslendingar lærum að nýta og njóta betur þess sem landið hefur að gefa. Í bókinni er hægt að fræðast um það hvað þörungar eru, hvers vegna við eigum að borða þá, hvar þeir vaxa, hvernig má nýta þá á sjálfbærann hátt svo sem sjálfbæra nýtingu matþörunga, verkun og geymsluaðferða. Við lögðum mikla áherslu á að bókin væri sett upp á bæði fallegan og aðgengilegan hátt,“ lýsir Eydís, en bókin hefur að geyma kort sem sýna vaxtarsvæði átta helstu matþörunga landsins auk leiðbeininga um það hvernig lesa má flóðatöflur til að komast að hinum ólíku tegundum.

„Um það bil helmingurinn af bókinni eru uppskriftir eða 50 talsins eftir Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistara. Þær eru ólíkar, en eiga það sameiginlegt að vera einfaldar og aðgengilegar og umfram allt annað: bragðgóðar,“ segir hún og nefnir í því samhengi fyrstu uppskrift bókarinnar: harðfisk, söl og smjör. „Mér þykir svolítið vænt um hana því þetta var týpískur hádegismatur á Suðurlandi um aldir. Þetta er góð uppskrift og í raun ofboðslega einföld og það er gaman að hún skuli hafa fylgt okkur Íslendingum frá landnámi, en í bókinni leikum við okkur aðeins með hana þar sem smjörið er brennt sem gefur því dásamlegt, karamelíserað bragð.“

Miklu meira en bara ofurfæða

- Auglýsing -

Eydís bendir á að það sé leitun að annarri eins ofurfæðu og þörungum. „Þá á ég við að þörungar eru einar næringarríkustu lífverur sem við höfum aðgang að hérlendis sem og erlendis. Það er engin planta sem vex upp á landi sem inniheldur jafn mikið og fjölbreytt magn næringarefna, vítamína og lífvirkra efna eins og þörungar. Þeir vaxa í gríðarlega erfiðum, síbreytilegum aðstæðum og til þess að lifa af þurfa þeir að framleiða þeir mikið af öflugum, lífvirkum efnum sem plöntur sem vaxa við mildari skilyrði þurfa ekki að framleiða, efnum sem eru til dæmis bólgu- og vírushemjandi. Því er algengt að unnin séu efni úr þörungum sem eru notuð í lyf, fæðubótarefni og snyrtivörur. Þeir eru miklu meira en bara ofurfæða.“

Eydís segir að bókin sé líka nokkuð merkileg fyrir þær sakir að í henni er að finna fyrrnefnd þörungakort. „Þetta eru afskaplega aðgengileg kort sem sýna útbreiðslu þeirra við íslandsstrendur. Þarna er sem sagt búið að kortleggja strandir Íslands með tilliti til þess hvar matþörunga er að finna. Þetta eru upplýsingar sem þú finnur hvergi annars staðar, þetta er alveg nýtt,“ segir hún og bætir við í raun megi segja að kortin séu kveikjan að bókinni.

Um það bil helmingurinn af bókinni eru uppskriftir eða 50 talsins eftir Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistara. Mynd / Karl Petersson

„Ég er land- og umhverfisfræðingur að mennt og var að vinna að kortlagningu fjöruvistgerða fyrir Náttúrustofu Suðvesturlands og Náttúrufræðistofnun, sem varð til þess að ég fékk áhuga á þörungum og er síðan þá búin að ganga með þá hugmynd í maganum að gera bók um matþörunga á Íslandi. Fyrir þremur árum kom svo mágkona mín Silja Dögg Gunnarsdóttir að máli við mig. Á fjörur hennar hafði rekið erlend matreiðslubók um matþörunga sem hún vildi þýða og þegar ég skoðaði hana leit ég á hana og sagði: „Nei veistu, við gerum bara okkar eigin bók!“

- Auglýsing -

Við fengum Hinrik Carl Ellertsson matreiðslumeistara til liðs við okkur og þegar Karl Petersen ljósmyndari, sem er einn ástsælasti matarljósmyndari landsins, bættist í hópinn fyrir hans tilstuðlan byrjað bókin að mótast. Einar Geir og Ósk hjá hönnunarstofunni E&Co unnu einstakt verk við hönnun hennar og nú þremur árum síðar er bókin Íslenskir matþörungar orðin að veruleika,“ segir hún en bókin kom út rétt fyrir helgi.

„Já, það er hægt að nálgast hana í verslanir Pennans Eymundssonar, henni var dreift í flestar búðir fyrir helgi, eða kaupa hana í gegnum heimasíðu bókaútgáfunnar Sögur útgáfa, sogurutgafa.is, sem gefur bókina út,“ segir Eydís glaðlega. „Hún verður aðgengileg þar í vikunni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -