Íslenskt viskí vinnur til gullverðlauna í London Spirits Competition 2020.
„Við erum gríðarlega ánægð og stolt með að ná svona langt, þetta er auðvitað frábær árangur,“ segir Haraldur Þorkelsson forstjóri Eimverks Distillery um árangurinn, en Flóki Single Malt Whisky frá Eimverk Distillery vann í vikunni til gullverðlauna í London Spirits Competition 2020.
Yfir þúsund vörur frá 69 löndum voru skráðar í keppnina sem hófst þann 6. júlí, þar af 122 tegundir af viskí. Af þessum 122 tegundum hlutu aðeins þrjú önnur viskí gullverðlaun. Hlaut Flóki alls 93 stig í keppninni, en í stigagjöfinni vegur bragð vörunnar hæst og gefur allt að 50 stig. Síðan eru 25 stig gefin fyrir verðgildi og 25 stig fyrir útlit og framsetningu.
Haraldur viðurkennir að hann hafi búist við að Flóki næði góðum árangri í keppninni, en úrslitin hafi engu að síður komið þægilega á óvart. „Við áttum alveg von á að ná árangri en að fá svona mörg stig fyrir þriggja ára viskí, við erum alveg í skýjunum yfir því,“ segir hann glaður.
„Við áttum alveg von á að ná árangri en að fá svona mörg stig fyrir þriggja ára viskí, við erum alveg í skýjunum yfir því.“
Haraldur bendir á að ekki sé nóg með að Flóki hafi unnið til gullverðlauna í keppninni heldur hafi viskíið líka náð inn á top tíu heildarlistann yfir alla drykki í keppninni. Það sé ekki síður góður árangur. „Það er auðvitað virkilega flott niðurstaða sem setur okkur í sérstöðu,“ segir hann.
Flóki, sem kom fyrst á markað árið 2014, er fyrsta og eina íslenska viskíið og er framleitt úr íslensku byggi af Eimverk Distillery, eins og fyrr segir, en fyrirtækið var stofnað árið 2011 með það að markmiði að þróa og framleiða íslenskt viskí alfarið úr íslenskum hráefnum. „Við eigum stórkostlega gott vatn og bygg hér á Íslandi,“ segir Haraldur, „og undanfarin 10 ár höfum við stöðugt verið að bæta okkur í viskígerð. Það er auðvitað þolinmæðisverk að búa til gott viskí og það var ekki fyrr en á seinni hluta síðasta árs sem við vorum komin með seríu sem við erum ánægð með og þá fyrst fórum að hugleiða þann möguleika að fara að keppa.“
Haraldur getur þess að Flóki hafi verið tekið fagnandi erlendis og sé nú fluttur út til yfir 20 landa, þar á meðal til Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Kína og Japan. „Sérstaðan, þessi íslenski keimur, hefur greinilega skilað sér,“ segir hann. „Fólk finnur að þarna er eitthvað nýtt og spennandi á ferð og þess vegna hefur Flóki gengið svona vel í útflutningi.“
Þess má geta að Eimverk Distillery hefur áður unnið til verðlauna fyrir framleiðslu sína. Sem dæmi um það vann ginið Vor fyrstu verðlaun í alþjóðlegri keppni áfengisframleiðenda, San Francisco World Spirits Competion, árið 2014. Tegundin var meðal sex annarra sem hlutu fyrstu verðlaun í flokknum.