Fimmtudagur 26. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Jarðarber er ekki bara jarðarber

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Smám saman höfum við áttað okkur á því að við getum ræktað hér heima, á jaðri hins byggilega heims, eins og var svo oft sagt fyrir 30 árum, miklu meira en áður var haldið. Gróðurhús hafa sprottið upp í görðum, frumkvöðlar í ylrækt hafa prófað sig áfram og mörkin eru nánast eingöngu þau sem ímyndunaraflið setur okkur.

Í dag eru það nokkrir garðyrkjubændur sem sjá okkur fyrir jarðarberjum, þótt kostnaðurinn sé hærri en í þrælavinnubúðum á Suður-Spáni, og til eru íslensk kirsuber, hindber og margt fleira. Flest erum við sólgin í jarðarber og úrvalið og saga tegundanna hér á landi er einkar fjölbreytt.

Villt jarðarber vaxa hér heima á einstaklega skjólgóðum stöðum og í grónu landi (og ná fullþroska – fuglanir eru þó ansi fljótir að átta sig á því!) en fáar tegundir eru ræktaðar í gróðurhúsum landsins. Það er brotabrot af því sem finnst í heiminum.

Rómverjar kunnu að meta villt jarðarber en ræktun byrjaði ekki fyrr en á 14. öld og þá um leið byrjuðu kynbætur. Á 15. öld var þegar farið að tala um garðajarðarber sem urðu mjög algeng á 16. öld, þá aðallega í Bretlandi. Jarðarberin uxu einnig i Norður- og Suður-Ameríku og það var ekki fyrr en afleggjarar þaðan komu til Evrópu í byrjun 18. aldar að jarðarberjarækt varð almenn.

Plöntur frá Canada og Chile gáfu afbrigði sem varð strax afar vinsælt og var ræktað með mjög góðum árangri í Plougastel á Bretagne-skaganum í Frakklandi. Þetta var um miðja 18. öld og eftir það hafa kynbætur átt sér stað alls staðar; til að byrja með voru héruðin sem höfðu temprað loftslag fyrir valinu (England, Belgía) því vatnsbúskapur er mikilvægur við ræktunina – en fljótlega þróuðust afbrigði sem hentuðu í alls kyns loftslagi. Sömuleiðis voru afbrigði þróuð markvisst með ilm- og bragðgæði í huga þannig að jarðarberin sem við fáum í dag eru í raun langt frá þeim fyrstu jarðarberjum sem voru á borðum manna á 17. eða 18. öld.

Jarðarber er ekki ávöxtur heldur eru fræin sem eru á því ávextirnir, kjötið sem við sækjumst eftir heldur eiginlega utan um fræin sem hafa svo áhrif á það hvort jarðarberin verða ilm- eða safarík. Sumar tegundir bera einungis kven- eða karlfræ. Og tegundirnar eru fjölmargar.

Jarðarberin sem komu til Evrópu frá Chile voru hvít og enn eru hvít jarðarber ræktuð – einnig finnast græn jarðarber sem eru mest notuð af veitingahúsum, þau hafa keim og ilm af venjulegum jarðarberjum en mun meiri sýru. Þær tegundir sem eru hvað vinsælastar í dag hafa verið þróaðar í Frakklandi um og eftir 1960, eins og Gariguette-tegundin, einstaklega bragðgóð, eða Mara des Bois sem líkist í öllu villtum jarðarberjum nema mun stærri. Þessar tegundir eru því miður of viðkvæmar til að flytja á milli landa.

- Auglýsing -
Þær tegundir jarðarberja sem eru hvað vinsælastar í dag hafa verið þróaðar í Frakklandi um og eftir 1960.

Evrópulöndin framleiða í dag 1,5 milljónir tonna af jarðarberjum og þar er Spánn fremstur í röð og Bandaríkin fylgja fast á eftir með 1 milljón tonna og þar er Kalifornía efst á lista. Framleiðslan er að miklu leyti iðnvædd sem þýðir að mikið af tilbúnum áburði og varnarefnum (illgresiseyði, skordýraeitri o.fl.) eru notuð og í allt of mörgum tilfellum er ekki farið eftir félagslega siðferðislegum reglum. Verðið þarf að vera sem lægst – en eins og sagt er oftar og oftar: „ódýr matur er dýr blekking“ …

Auðvelt er að rækta jarðarber heima í garðinum, enda gera margir það, og best að byrja að rækta í vermikassa eða undir plasti – þá verður uppskeran snemma.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -