Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-9 C
Reykjavik

Jólamatarvenjur Íslendinga fyrr og nú

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á síðustu áratugum hafa orðið miklar breytingar á jólamatarhefðum okkar Íslendinga. Fólk sem fæddist upp úr miðri síðustu öld man örugglega eftir öllum smákökusortunum sem bakaðar voru og ekki mátti snerta fyrr en á aðfangadag og rauðu jólaeplin sem keypt voru rétt fyrir jólin og komu með jólailminn í húsið. Ýmislegt góðgæti var útbúið og keypt og öllu var svo tjaldað til fyrir jólahátíðina. Tilhlökkun barnanna var mikil eins og endranær en sennilega oft meiri þá en nú því fólk gerði sér ekki oft dagamun eins og gert er nú á dögum.

Næfurþunnar pönnukökur af hveitiskorti

Steikt brauð, laufabrauð, lummur og pönnukökur var hátíðarbrauðið fyrr á öldum. Kornleysið sem hér ríkti hefur sennilega sett sitt mark á ýmsar hefðir sem enn eru við lýði á Íslandi. Pönnukökurnar okkar eru t.d. óvenjuþunnar miðað við pönnukökur annarra landa og telja sumir að það hafi verið gert til að spara hveitið. Laufabrauðið okkar er séríslenskt þó að það þekkist vel í öðrum löndum að steikja þunnar kökur í feiti en ekki útskornar eins og gert er hér á landi. Kökurnar voru hafðar næfurþunnar til að allir gætu fengið smávegis bita og skornar út til að gera þær hátíðlegri og girnilegri. Í bók Hallgerðar Sigurðdóttur Íslenskum matarhefðum kemur fram að elsta laufabrauðsheimildin sem vitað er um sé frá árinu 1736 og að fyrst hafi það verið bakað fyrir höfðingja en orðið svo að hátíðarbrauði almennings á 19. öld.

Grasaseyði út á jólagrautinn

Jólagrauturinn var oftast búinn til úr bankabyggi eða grjónum og hafður hnausþykkur með rúsínum. Á síðari áratugum og enn í dag er sá siður hér á landi að setja möndlu út í jólagrautinn en sá leikur er sennilega kominn frá Danmörku eins og svo margar aðrar matarhefðir okkar. Líklega hefur mjólk, mysa og grasaseyði bragðbætt með sýrópi verið notað út á grautinn.

Hressing fyrir hátíðarnar

- Auglýsing -

Upp úr miðri 18. öld fór kaffi og te að berast til landsins og þá var það lengi vel ekki notað nema í kringum jólin. Kemur fram í ritinu Íslenskum þjóðháttum að aldrei hafi fólk keppst eins mikð við prjónaskapinn eins og á jólaföstunni, svo þurfti að þvo allt hátt og lágt. Einnig var það siður víða að fara í kaupstað fyrir jól og fá sér í jólakútinn eða fá sér „aðeins í tána“ til að hressa sig við fyrir hátíðarnar og lagði fólk oft mikið á sig til þess að ná sér í slíka jólahressingu.

Kjötsúpa á aðfangadagskvöld

Gömul venja hér á landi var einnig að slátra kind rétt fyrir jólin til að hafa nýtt kjöt um jólahátíðina og stundum var nýfæddum kálfi slátrað eða náð í rjúpur þar sem hægt var. Algengt var að bera á borð magál, sperðil (sver pylsa fyllt með kjöti), laufabrauð og hangikjöt. Einnig var algengt að borða kjötsúpu á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag sem við þekkjum enn.

- Auglýsing -

Grein þessi var unnin upp úr bókunum Íslensk matarhefð eftir Hallgerði Gísladóttur, Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili og Í jólaskapi eftir Árna Björnsson og Hring Jóhannesson.

Texti / Bergþóra Jónasdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -