Útnefningu köku ársins er gjarnan beðið með mikilli eftirvæntingu en að þessu sinni var kakan hans Sigurðar Alfreðs Ingvarssonar fyrir valinu en þemað í ár var Nóa tromp. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra tók á móti fyrstu kökunni við hátíðlega stund í atvinnuvegaráðuneytinu.
Það er Landssamband bakarameistara sem árlega heldur utan um keppnina um köku ársins sem að þessu sinni var haldin í samstarfi við Nóa Siríus og eina krafan sem gerð var um kökuna var að hún innihéldi Nóa tromp.
Dómarar í keppninni voru Berglind Guðmundsdóttir, eigandi matarbloggsins Gulur, rauður, grænn og salt, Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Nóa Síríus, og Berglind Guðjónsdóttir hjá Samtökum iðnaðarins, og eftir að hafa metið bragðkosti, útlit og hversu líkleg kakan væri til að falla öðrum í geð varð kakan hans Sigurðar Alfreðs fyrir valinu. Sigurður er bakari í bakaríinu Hjá Jóa Fel.

Í dag tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra á móti fyrstu kökunni við hátíðlega stund í atvinnuvegaráðuneytinu við Skúlagötu 4. En kakan ársins 2020 er nú til sölu í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara um allt land og verður til sölu það sem eftir er ársins.


