Þessi kjúklingabaunapítsa með sætum kartöflum, jalapeni og beikoni klikkar ekki. Botninn er án hveitis og einstaklega ljúffengur.
Kjúklingabaunapítsa með sætum kartöflum, jalapeni og beikoni
7-8 litlar pítsur
5 dl kjúklingabaunamjöl
1 tsk. salt
5-6 dl vatn
2 tsk. oregano
1 hvítlauksgeiri, mjög fínt rifinn
1 egg
Blandið öllu saman, deigið á að vera svipað þykkt og vöffludeig. Hitið olíu á pönnu og steikið botnana líkt og þegar bakaðar eru skonsur, það er ágætt að nota botninn á ausu til þess að dreifa vel úr deiginu á pönnunni.
Best er að hafa botnana eins þunna og þið komist upp með. Það er tilvalið að frysta þessa botna með bökunarpappír á milli, þannig er hægt að grípa til þeirra með litlum fyrirvara.
Ofan á:
1 sæta kartafla, afhýdd og skorin í mjög þunnar sneiðar
1 dl pítsusósa
3-4 dl rifinn ostur
1-2 stk. ferskur jalapeno-pipar, skorinn í þunnar sneiðar, eins má nota úr krukku
7-8 beikonsneiðar, steiktar stökkar og skornar smátt
2-3 vorlaukar, skornir þunnt
Steikið kartöflusneiðarnar eða sjóðið þær í léttsöltu vatni í 2-3 mín. eða þar til þær eru nokkuð mjúkar undir tönn. Setjið pítsusósu á botnana ásamt rifnum osti. Raðið kartöflunum ofan á ásamt jalapeno, beikoni og vorlauk.
Bakið þar til osturinn hefur tekið fallegan lit.
Umsjón og stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Heiða Helgadóttir