Hátíðlegt er að bjóða upp á forrétti áður en jólasteikin er borin á borðið. Hér höfum við uppskriftir að þremur klassískum forréttum úr tilraunaeldhúsi Gestgjafans.
Laxatartar með eplaskífum
fyrir 4-6
300 g reyktur lax, skorinn í litla bita
200 g grafinn lax, skorinn í litla bita
2 skalotlaukar, fínt saxaðir
½ msk. ferskt dill, saxað
salt og pipar eftir smekk
1 grænt epli
2 msk. laxa- eða silungahrogn (má líka nota kavíar)
Blandið báðum tegundum af laxi, lauk og dilli saman, blandið 2 msk. af sósunni út í. Látið bíða í eina klukkustund. Sneiðið nokkrar mjög þunnar skífur af eplinu, gott er að nota mandólín. Setjið svolítið af tartarblöndunni á 4-6 diska og raðið eplaskífum, u.þ.b. 3 á hvern disk, ofan á hann. Skiptið því sem eftir er af tartarnum á milli diskanna, ofan á eplin. Hellið sósu yfir tartarinn og örlítið yfir eplin og í kring á diskinn. Skreytið með laxahrognum og fersku dilli.
Sósa
¾ dl góð olía
2 msk. sítrónusafi
örlítill sykur
salt og pipar
Hrærið allt saman í skál.
Hvítlaukssteiktir humarhalar
fyrir 4-6
Humar er afar einfalt að elda og hann er nánast alltaf góður. Það eina sem þarf að gera er að klippa hann að framan og hreinsa görnina úr. Á jólunum er skemmtilegast að nota stóran gæðahumar og þá má áætla 2-4 á mann í forrétt en fleiri ef þeir eru litlir, ef humarinn er lítill verður að elda hann skemur.
8 stórir humarhalar
4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
2-3 msk. smjör
1 dl steinselja, söxuð
hvítur nýmalaður pipar
sjávarsalt
2 sítrónur
Bræðið smjörið á pönnu, bætið hvítlauknum saman við og látið malla í u.þ.b. 30-40 sekúndur. Bætið humarhölunum út í og steikið í 2-3 mínútur eða þar til halarnir verða hvítir að lit. Sáldrið steinseljunni saman við og kryddið með pipar og salti og blandið öllu vel saman á pönnunni. Setjið á diska og berið fram með sítrónubátum og góðu snittubrauði.
Aspassúpa
fyrir 6
30 g smjör
3 msk. hveiti
12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð
2 aspasdósir (u.þ.b. 600 g samtals)
salt eftir smekk
pipar eftir smekk
2 dl rjómi, þeyttur
2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)
Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með soðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki, bætið soðinu af aspasnum út í í restina. Sjóðið súpuna í 3-5 mín., bætið þá aspas út í og látið allt sjóða saman við vægan hita í 4-5 mín. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á með steinselju.
Nota má ferskan aspas í súpuna í staðinn fyrir aspas úr dós. Þá er neðsti hlutinn af stönglinum flysjaður létt, aspasinn skorinn í bita og soðin
Texti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ljósmyndarar Birtíngs