Þessi gómsæta kaka með hnetu- og kanilfyllingu passar bæði vel á veisluborðið og sem helgarbakstur fyrir fjölskylduna.
100 g mjúkt smjör
2 ½ dl sykur
2 egg
1 tsk. vanilludropar
5 dl hveiti
½ tsk. salt
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
2 ½ dl súrmjólk
150 g blanda af pekanhnetum og
heslihnetum, saxaðar fínt (eins má
nota aðrar hnetur)
100 g púðursykur
1 ½ tsk. kanill
Hitið ofn í 175°C. Hrærið saman smjör og sykur þar til blandan verður ljós og kremkennd. Bætið eggjum saman við einu í einu og hrærið vel á milli.
Hrærið þar til blandan verður létt og loftmikil. Sigtið þurrefnin saman í skál. Blandið saman súrmjólk og matarsóda í annarri skál. Setjið þurrefnin og súrmjólkurblönduna til skiptis út í smjörblönduna í nokkrum
skömmtum og hrærið rólega á milli.
Setjið helminginn af deiginu í smjörpappírsklætt smelluform sem er 24 cm í þvermál. Blandið saman hnetum, púðursykri og kanil og stráið yfir deigið. Smyrjið restinni af deiginu
yfir og bakið í u.þ.b 50 mín. eða þar til prjónn sem stungið er í miðjuna kemur
hreinn út. Látið kólna áður en kremið er sett ofan á.
150 g dökkt súkkulaði
150 g rjómaostur, við stofuhita
u.þ.b. 2 dl flórsykur
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið það kólna niður í stofuhita. Hrærið rjómaost og flórsykur og blandið súkkulaðinu varlega saman við með sleikju. Smyrjið kreminu ofan á kökuna og berið fram. Gætið þess vel að súkkulaðið sé ekki of heitt þegar því er blandað saman við rjómaostablönduna því þá verður kremið of þunnt og til vandræða.
Gott ráð er að bleyta viskastykki með köldu vatni og vefja utan um kökurfomið þegar það er sett í ofninn. Hægt er að nota títuprjóna til þess að festa viskastykkið utan um formið. Þetta hjálpar til við að kakan bakist jafnt og fallega og kemur í veg fyrir að hún rísi of mikið í miðjunni og springi.
Umsjón/ Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti/ Ólöf Jakobína Ernudóttir