Föstudagur 17. janúar, 2025
1.1 C
Reykjavik

Linda Ben: „Það hefur virkilega áhrif á hvernig manni líður í hvaða umhverfi maður er“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Linda Benediktsdóttir, Linda Ben, uppskriftahöfundur sem rekur uppskriftasíðuna lindaben.is, er gift, tveggja barna móðir. Hún á gullfallegt heimili sem fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum þekkja og þar galdrar hún reglulega fram dýrindisrétti og köku- og tertuuppskriftir og deilir hún galdrinum á netinu svo fleiri geti notið. Auðvitað lumar hún á flottum uppskriftum fyrir jólin og áramótin.

Ljósmynd: Kazuma Takigawa

Linda starfaði sem fyrirsæta þegar hún var unglingur og flutti meðal annars til Indlands til að starfa þar sem fyrirsæta. Þegar hún flutti aftur heim kláraði hún menntaskóla og hóf síðan nám í lífefnafræði við Háskóla Íslands. „Námið tók svolítið á mig andlega,“ segir hún og nefnir að námið hafi heillað hana, en hún hafi haft mikinn prófkvíða. Hún og Ragnar Einarsson, eiginmaður hennar, voru á þessum tíma búin að kynnast og eignuðust þau son sinn um það leyti sem Linda útskrifaðist sem lífefnafræðingur. „Ég vissi, þegar ég kláraði námið, að ég myndi ekki vilja vinna við þetta fag. Mér fannst starf lífefnafræðings ekki heilla mig. Ég vildi gera eitthvað meira skapandi. Ég fór að einbeita mér að því sem mér þótti skemmtilegt á meðan ég var í fæðingarorlofi. Fór þá aftur að baka mikið; tók myndir af því sem ég var að gera í eldhúsinu og fór að deila því á Instagram og Facebook. Það voru samt voðalega fáir á Instagram á þeim tíma. Þá byrjaði boltinn svolítið að rúlla. Þá fór fólk að biðja mig um að skrifa fyrir sig greinar og deila uppskriftum á vefsíður sem voru þá vinsælar og vinur okkar sem átti verslun bað mig um að gera uppskriftir fyrir verslunina. Ég fann fyrir rosalegum áhuga fyrir uppskriftunum og stofnaði því lindaben.is árið 2016.“

Ljósmynd: Kazuma Takigawa

Að einfalda hversdagsleikann Já, fiktið vatt svo sannarlega upp á sig. Unga parið keypti fokhelt hús 2013 þegar Linda var ófrísk að syni þeirra. Þegar það hús var tilbúið seldu þau það og keyptu lóð beint fyrir aftan fyrsta húsið sitt og byggðu þar hús frá grunni. Mörg þúsund manns byrjuðu að fylgja Lindu á samfélagsmiðlum meðan á þeim framkvæmdum stóð – og hún deildi jafnframt uppskriftum. Heimilið, sem er í Mosfellsbæ, er stílhreint og bjart og þar ríkir einfaldleikinn, en jafnframt hlýleikinn ríkjum. Þar býr Linda ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra hjóna, 10 ára syni og fjögurra ára dóttur.

Ljósmynd: Kazuma Takigawa

„Við erum með mjög svipaðan stíl, ég og maðurinn minn. Við heillumst mikið af einföldum og hlýlegum stíl þar sem hver hlutur fær að njóta sín. Okkur finnst fegurðin leynast svolítið í einfaldleikanum.“ Og fylgjendur Lindu fá stundum að berja augum fallegar myndir af heimilinu. „Ég gef hugmyndir að uppröðun,“ segir Linda sem hefur augljóslega góðan smekk og mikinn áhuga á hönnun. „Eins finnst mér gott að hafa hlýlegt viðarparket og lifandi blóm sem gefur meiri hlýju og náttúrulega og notalega stemmingu.“

Linda vinnur heima og hún segir að það skipti hana miklu máli að hafa fallegt í kringum sig og skapa notalegt umhverfi þar sem henni líði vel. „Það hefur virkilega áhrif á hvernig manni líður í hvaða umhverfi maður er.“ Viðtalið við Lindu má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -